8. feb. 2024

Vel heppnuð safnanótt í Garðabæ

Þrátt fyrir gula viðvörun og þar af leiðandi leiðindaveður var dagskrá á Bókasafni Garðabæjar og Hönnunarsafni Íslands vel sótt.

  • Almar bæjarstjóri ásamt Lilý Erlu Adamsdóttur, listakonu

Safnanótt var haldin á höfuðborgarsvæðinu föstudaginn 2. febrúar og þrátt fyrir gula viðvörun og þar af leiðandi leiðindaveður var dagskrá á Bókasafni Garðabæjar og Hönnunarsafni Íslands vel sótt.

Dagskráin hófst með fjölskyldudagskrá 17-20 á bókasafninu þar sem Skólakór Sjálandsskóla söng undir stjórn Ólafs Schram. Óhætt er að segja að safnið hafi fyllst af glöðum gestum á öllum aldri enda sungu stúlkurnar í kórnum yndislega og lagavalið sérlega metnaðarfullt hjá kórstjóra. Að loknum söng skunduðu gestir yfir í svítuna þar sem bingó fór fram með skemmtilegum vinningum og mikil spenna í loftinu. Þegar bingói lauk tók við skapandi ritsmiðja með grafíska hönnuðinum Unu Maríu Magnúsdóttur og það var gaman að fylgjast mjög sniðugum krökkum vinna með bækur, blað og blýant. Sýning á málverkum Huldu Hraundal var svo opnuð á veggnum en sýningin er á vegum Grósku.


Gestir Hönnunarsafnsins létu veðrið heldur ekki stoppa sig enda sumarstemning á efri hæð safnsins þar sem veggplöntur Lilýjar Erlu Adamsdóttur skreyta nú veggina. Lilý hefur verið í vinnustofudvöl í safninu undanfarna mánuði og lauk dvölinni með því að mála nokkurskonar veggfóður fríhendis á veggina á sýningunni Hönnunarsafnið sem heimili. Gestum til enn meiri yndisauka fluttu jazztónlistarmennirnir Birgir Steinn Theodórsson bassaleikari, Sölvi Kolbeinsson og Haukur Gröndal saxófónleikarar ásamt trommuleikaranum Magnúsi Tryggvasyni Eliassen tónlist á opnuninni. Gestir nutu þess einnig að skoða verk Einars Þorsteins í stúdíóinu hans og sýninguna Fallegustu bækur í heimi á Pallinum. Innflutningspartý fór svo fram í vinnustofu safnsins en gullsmiðurinn Marta Staworowska verður í vinnustofudvöl til 5. maí og mun vinna víravirki og gestir geta fylgst með henni að störfum. DJ-Kjörk , Björk Brynjarsdóttir, hélt uppi fjörinu í vinnustofunni á safnanótt og óhætt að segja gestir hafi farið glaðir út í storminn.





Ljósmyndari: Sigga Ella.