14. feb. 2019

Vel mætt á Safnanótt og Sundlauganótt

Garðabær tók þátt í Vetrarhátíð með fjölbreyttri dagskrá á Safnanótt og Sundlauganótt 8. og 9. febrúar sl

  • Sundlauganótt í Ásgarðslaug
    Sundlauganótt í Ásgarðslaug
  • Sundlauganótt í Ásgarðslaug
    Sundlauganótt í Ásgarðslaug

Garðabær tók þátt í Vetrarhátíð með fjölbreyttri dagskrá á Safnanótt og Sundlauganótt 8. og 9. febrúar sl. Í tilefni hátíðarinnar voru ýmsar byggingar á höfuðborgarsvæðinu lýstar upp í grænum lit norðurljósanna og í Garðabæ var efsti hlutinn á ráðhústurninum lýstur upp og grænir ljósastaurar lýstu leiðina inn í Hönnunarsafnið og Bókasafnið á Garðatorgi.

Myndasyrpa frá Safnanótt og Sundlauganótt á fésbókarsíðu Garðabæjar. 

Margt í boði á Safnanótt í Garðabæ

Á Safnanóttinni var opið hús og fjölbreytt dagskrá frá kl. 18-23 í Hönnunarsafni Íslands, burstabænum Króki og Bókasafni Garðabæjar við Garðatorg.  Í Króki var hægt að fara í ratleik og fá leiðsögn á staðnum. Í Hönnunarsafninu var boðið upp á skemmtilega skuggateiknismiðju þar sem fólk á öllum aldri tók þátt í að búa til sín eigin skuggalistaverk.  Á bókasafninu var boðið upp á söng barnakórs Sjálandsskóla, flottar hljómsveitir úr rytmadeild Tónlistarskóla Garðabæjar spiluðu fyrir gesti, spákonan var á sínum stað, gestir gátu fengið axlanudd og fræðst um ,,geðveikar húsmæður",  ratleikurinn sló í gegn og Jón Jónsson tónlistarmaður heillaði gesti í lok kvölds einlægum flutningi.  

Safnanótt - opið hús í Hönnunarsafni ÍslandsSafnanótt - opið hús í Hönnunarsafni ÍslandsSafnanótt - Jón Jónsson í Bókasafni Garðabæjar

Í ár var einnig opið hús á Bessastöðum frá kl. 19-22.  Gestum var boðið upp á leiðsögn um húsakynnin, opið var í kirkjuna, Bessastaðastofu og fornleifakjallarann.  Í hlaði Bessastaða var fyrsti forsetabíll lýðveldissögunnar, Packard bifreið Sveins Björnssonar árgerð 1942, til sýnis. Fjölmargir lögðu leið sína í opna húsið að Bessastöðum og forsetahjónin tóku þar sjálf á móti öllum gestum og heilsuðu með handabandi.
Myndasyrpa á vef forsetaembættisins.  

Safnanótt - opið hús á BessastöðumSafnanótt - opið hús á Bessastöðum

Sundlauganótt í Ásgarðslaug

Sundlauganótt var haldin laugardagskvöldið 9. febrúar frá kl. 17-22 og að þessu sinni var boðið upp á dagskrá í Ásgarðslaug.  Það var fallegt vetrarveður um kvöldið og margir sem lögðu leið sína í sundlaugina.  Í upphafi kvölds var boðið upp á kayak-kynningu í sundlauginni sem fjölmargir sundlaugargestir nýttu sér einnig var hægt að fá örkennslu í sundtækni á staðnum.  Unga kynslóðin mætti með dót í barnalaugina og einnig var hægt að fá sirkusdót í láni á staðnum.  Jón Víðis töframaður sýndi listir sínar og fimleikatriði frá Sirkus Íslands sló í gegn hjá sundlaugargestum.  Gestir gátu svo tekið þátt í zumba í sundlauginni og kvöldið endaði með rólegri tónlist og notalegri lýsingu. 

Sundlauganótt í ÁsgarðslaugSundlauganótt í ÁsgarðslaugSundlauganótt í Ásgarðslaug