5. des. 2019

Vel sótt aðventuopnun í Króki

Margir lögðu leið sína í Krók þetta árið þegar komið var að hinni árlegu aðventuopnun sunnudaginn 1. desember sl. 

  • Aðventuopnun í Króki
    Aðventuopnun í Króki

Undanfarin ár hefur verið opið hús í burstabænum Króki í Garðahverfi við Garðaholt fyrsta sunnudag í aðventu. Margir lögðu leið sína í Krók þetta árið þegar komið var að hinni árlegu aðventuopnun sunnudaginn 1. desember sl.  Yfir hundrað manns komu í heimsókn í Krók þennan dag og gátu þar fengið leiðsögn um staðinn og skoðað gamla jólatréð í Króki sem var til sýnis. Yngstu gestirnir gátu svarað spurningum í skemmtilegum ratleik á staðnum. 

Aðventuopnun í Króki

Aðventuopnun í Króki

Um burstabæinn Krók

Krókur er lítill bárujárnsklæddur burstabær sem var endurbyggður úr torfbæ árið 1923. Í Króki eru varðveitt gömul húsgögn og munir sem voru í eigu hjónanna Þorbjargar Stefaníu Guðjónsdóttur og Vilmundar Gíslasonar. Þorbjörg flutti í Krók ásamt fjölskyldu sinni vorið 1934 og bjó þar þangað til hún lést árið 1985. Afkomendur Þorbjargar og Vilmundar gáfu Garðabæ bæjarhúsin í Króki ásamt útihúsum og innbúi árið 1998. Bærinn er nú varðveittur sem safn og er gott dæmi um húsakost og lifnaðarhætti alþýðufólks í þessum landshluta á fyrri hluta 20. aldar.

Krókur er opinn almenningi alla sunnudaga á sumrin en næst verður opið hús í Króki á Safnanótt föstudagskvöldið 7. febrúar 2020.