8. feb. 2019

Velkomin í söfnin í Garðabæ á Safnanótt

Á Safnanótt, föstudaginn 8. febrúar, verður opið hús og fjölbreytt dagskrá frá kl. 18-23 í Hönnunarsafni Íslands, burstabænum Króki og Bókasafni Garðabæjar við Garðatorg. Auk þess verður opið hús á Bessastöðum frá kl. 19-22. 

  • Bessastaðir
    Bessastaðir

Á Safnanótt, föstudaginn 8. febrúar, verður opið hús og fjölbreytt dagskrá frá kl. 18-23 í Hönnunarsafni Íslands, burstabænum Króki og Bókasafni Garðabæjar við Garðatorg. Auk þess verður opið hús á Bessastöðum frá kl. 19-22. Safnanótt er hluti af Vetrarhátíð sem stendur frá 7.-10. febrúar. Dagskráin í Garðabæ er aðgengileg í viðburðadagatalinu en einnig er hægt að sjá dagskrá á vef Vetrarhátíðar , þar er líka hægt að sjá tímatöflu í ókeypis safnanæturstrætó sem keyrir á milli safna um kvöldið.

Opið hús í Króki á Garðaholti á Safnanótt frá 18-23.

Burstabærinn Krókur er lítill bárujárnsklæddur burstabær sem var endurbyggður úr torfbæ árið 1923. Börn geta tekið þátt í ratleik á staðnum auk þess sem safnvörður veitir leiðsögn. Bílastæði eru við samkomuhúsið á Garðaholti, en Krókur staðsettur á gatnamótum Garðavegar og Garðaholtsvegar.

Jón Jónsson, spákona, barnakór, ratleikur o.fl. í bókasafninu

Í Bókasafni Garðabæjar við Garðatorg verður skemmtileg dagskrá fyrir alla aldurshópa á Safnanótt. Boðið verður upp á ratleik og leiðsögn um safnið, barnakór Sjálandsskóla syngur, gestir geta pantað stuttan tíma í axlarnudd eða tíma hjá spákonu. Geðveikar húsmæður er yfirskrift fyrirlestrar bókmennafræðingsins Hörpu Rúnar Kristjánsdóttur, nemendur úr rytmadeild Tónlistarskóla Garðabæjar spila fyrir gesti og að lokum mætir enginn annar en hinn vinsæli tónlistarmaður Jón Jónsson í safnið.

Skuggateiknismiðjur í Hönnunarsafninu

Á Safnanótt verður ókeypis aðgangur inn á sýningar og dagskrá Hönnunarsafnsins sem er til húsa að Garðatorgi. Boðið verður upp á skuggateiknismiðju í tengslum við sýninguna Safnið á röngunni með Einari Þorsteini í Hönnunarsafni Íslands. Með teikniáhöld að vopni býðst gestum að teikna upp skuggana og kynnast þannig formheimi Einars Þorsteins.
Smiðjurnar verða fjórar talsins á Safnanótt og hefjast kl. 19, 20, 21 og 22. En hægt er að mæta hvenær sem er í safnið um kvöldið til að taka þátt í smiðjunum.

Opið hús á Bessastöðum á Safnanótt kl. 19-22

Á Safnanótt verður forsetasetrið að Bessastöðum opið almenningi frá kl. 19-22. Gestum býðst að skoða Bessastaðastofu og kirkjuna. Auk hinna merku steinhúsa frá 18. öld geta gestir virt fyrir sér sýnishorn gjafa, sem forseta hafa borist og fornleifar sem veita innsýn í búsetu á Bessastöðum frá landnámstíð. Þá mun fyrsti forsetabíll lýðveldissögunnar, Packard bifreið Sveins Björnssonar, standa í hlaði Bessastaða.