24. okt. 2025

Vellíðan og velferð í brennidepli í forvarnaviku Garðabæjar 2025

Vellíðan og velferð er þema forvarnaviku Garðabæjar 2025 sem haldin verður dagana 29. október til 5. nóvember.

Vellíðan og velferð er þema forvarnaviku Garðabæjar 2025 sem haldin verður dagana 29. október til 5. nóvember. Í vikunni verða fjórir verndandi þættir í lífi barna og ungmenna í forgrunni: svefn, hreyfing, mataræði og samvera. Fjölskylduvæn afþreying og samverustundir verður í brennidepli í forvarnarvikunni.

Svefn: Hér má nálgast upplýsingar frá Embætti landlæknis um æskilegan svefntíma fyrir hvert aldursskeið.

Hreyfing: Það hefur jákvæð áhrif á heilsu og líðan allra hópa, á öllum æviskeiðum, að stunda reglulega hreyfingu. Regluleg hreyfing auðveldar fólki að takast á við dagleg verkefni, hvílast betur og eykur líkur á að lifa lengur við betri lífsgæði.

Mataræði: Holl og fjölbreytt fæða er mikilvæg fyrir heilsu og vellíðan. Í ráðleggingum um mataræði er lögð áhersla á að auka neyslu grænmetis, ávaxta og fisks og heilkorna vara og minnka neyslu á sykri, mettaðri fitu, salti og mikið unnum vörum. Gott og einfalt er nýr matarvefur sem ætlað er að gera hollt mataræði aðgengilegt, einfalt og skemmtilegt fyrir alla.

Samvera: Samvera með foreldrum er talin einn mikilvægasti verndandi þátturinn þegar áhættuhegðun barna er annars vegar. Samverustundir geta verið allskonar og þurfa ekki að kosta mikið, það er t.d. tilvalið að stunda útivist með sínum nánustu í þeim fjölmörgu útivistarsvæðum sem Garðabær hefur upp á að bjóða.

Laugardaginn 1. nóvember verða í boði þrír opnir og fjölskylduvænir viðburðir.

  • Skátafélagið Vífill - Vífill verður með göngu upp í nýju Vífilsbúð við Grunnuvötn. Gangan hefst klukkan 13:00, við bílastæðið við Vífilsstaðavatn. Skálinn verður skoðaður og umhverfið, svo verður svokallað snúbrauð grillað áður en farið verður til baka. Heildartími göngu verður u.þ.b. 2,5-3 klst.
  • Skátafélagið Svanir – Svanir bjóða upp á samverustund og skátadagskrá við Bjarnastaði á Álftanesi, frá klukkan 14:00 til 16:00.
  • Frisbígolf - Kynning og prufutími í frisbígolfi hefst klukkan 11:00 við Vífilsstaði. Árni Sigurjónsson frá Frisbígolfbúðinni tekur á móti fólki, lánar diska og leiðbeinir.

Forvarnarvikan í Garðabæ beinist ekki eingöngu að börnum og ungmennum heldur er markmiðið að ná til fólks á öllum aldri, því þessir verndandi þættir skipta máli á öllum æviskeiðum.

Lokahnykkurinn í forvarnarvikunni er Menntadagur Garðabæjar en hann verður haldinn 7. nóvember. Þá koma kennarar og starfsfólk í leik- og grunnskólum bæjarins saman og hlýða á áhugaverða fyrirlestra og erindi um verkefni sem hlotið hafa styrki úr þróunarsjóðum leik- og grunnskóla í Garðabæ undanfarin ár.

Dagskrá í stofnunum Garðabæjar

Stofnanir Garðabæjar taka þátt í forvarnarvikunni með áhugaverðum viðburðum í sínu innra starfi. Bæjarbúar eru hvattir til að taka virkan þátt í forvarnarvikunni. Hugum að vellíðan og velferð – á öllum aldri.