29. ágú. 2023

Verðbólga hefur áhrif á àrshlutauppgjör

„Fjárhagsstaðan er traust og við búum vel að því. Tekjur af byggingarétti og gatnagerð munu styrkja afkomuna á seinni hluta ársins“ 

  • Séð yfir Garðabæ

„Óhagstætt vaxta- og verðbólguumhverfi setja svip sinn á uppgjörið,“ segir Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar um nýtt árshlutauppgjör sem lagt var fyrir bæjarráð á þriðjudag. Samkvæmt sex mánaða uppgjöri Garðabæjar er niðurstaða A hluta uppgjörsins neikvæð sem nemur 1.038 m.kr og niðurstaða A og B hluta neikvæð sem nemur 672 m.kr.

„Fjárhagsstaðan er traust og við búum vel að því. Tekjur af byggingarétti og gatnagerð munu styrkja afkomuna á seinni hluta ársins,“ segir Almar, en gatnagerðargjöld vegna hverfa sem eru í uppbyggingu verða ekki færðar til tekna fyrr en lagt hefur verið mat á framkvæmdastöðuna um áramót og þá voru samþykkt tilboð í byggingarrétt lóða í fyrsta hluta á Hnoðraholti sem nema um 2.000 m.kr og eru ekki færðar inn í þetta uppgjör. Stefnt er að úthlutun byggingarréttar í seinni hluta Hnoðraholts á haustmánuðum. Verðbólga og kjarasamningar hafa haft sitt að segja fyrir rekstrarumhverfi bæjarins.

„Það er vaxandi áskorun að skila ásættanlegum rekstrartölum í grunnrekstri bæjarins. Það þarf að rýna það sérstaklega í fjárhagsáætlun 2024-2027,“ segir Almar en telur að staðan verði töluvert betri um áramót.