18. nóv. 2022

Viðburðir á aðventunni

Fjölmargir menningarviðburðir verða í boði á aðventunni í Garðabæ. Í viðburðadagatalinu á vef Garðabæjar er hægt að sjá nánari upplýsingar um hvern viðburð. 

Fjölmargir menningarviðburðir verða í boði á aðventunni í Garðabæ. Í viðburðadagatalinu á vef Garðabæjar er hægt að sjá nánari upplýsingar um hvern viðburð. Hægt er að senda inn upplýsingar um viðburði í Garðabæ á netfang Garðabæjar, gardabaer@gardabaer.is til að fá þá birta í viðburðadagatalinu.

Viðburðadagatal á vef Garðabæjar.

Auk þess eru flest allir viðburðirnir kynntir á facebook á vegum þeirra sem halda viðburðina. Hér fyrir neðan eru nokkrir menningarviðburða á aðventunni framundan taldir upp.

Hið árlega jólabókaspjall á Bókasafni Garðabæjar

Hið árlega jólabókaspjall á bókasafninu á Garðatorgi verður fimmtudaginn 24. nóvember kl. 20:00. Rithöfundar ársins eru þau Eva Björg Ægisdóttir, Jón Kalman Stefánsson, Sigríður Hagalín Björnsdóttir og Jónas Reynir Gunnarsson.Umræður, léttar veitingar , huggulegheit og jólaljós.Spennusagnahöfundurinn Eva Björg ræðir bók sína Strákar sem meiða þar sem lögreglukonan Elma glímir við sérlega erfitt mál sem teygir anga sína víða um samfélagið og tugi ára aftur í tímann.Jón Kalman mætir með skáldsöguna Guli kafbáturinn sem fjallar um listina, dauðann og þó miklu frekar um lífið, ímyndunaraflið og - skemmtilegt nokk, Bítlana.Forspárskáldið Sigríður Hagalín kynnir bók sína Hamingja þessa heims (liggur einhver spádómur þar fyrir?) En þar hverfur Sigríður aftur til fimmtándu aldarinnar. Aldarinnar sem týndist í Íslandssögunni.
Jónas Reynir mætir með nýjustu bók sína Kákasusgerillinn en þar er Jónas með persónum sínum Báru og Eiríki að kanna hugvíkkandi efni og þá sér í lagi þá tilhneigingu mannsins til að vilja breyta stöðugt líðan sinni.

Aðventuhátíð Garðabæjar

Fögnum upphafi aðventunnar þann 26. nóvember með dagskrá fyrir alla fjölskylduna á Garðatorgi, Bókasafni Garðabæjar og Hönnunarsafni Íslands. Lítill aðventumarkaður og lifandi tónlist á Garðatorgi 1-4, föndursmiðjur í Hönnunarsafni og Bókasafni. Jólaleikrit og jólaball, jólasveinar á sveimi og stemning í fyrirrúmi. Daginn áður en Aðventuhátíðin er haldin munu leikskólabörn í Garðabæ kveikja á jólatrénu á Garðatorgi.

Dagskrá:

  • Kl. 13-15 merkimiðasmiðja á Hönnunarsafni Íslands 
  • Kl. 13-15 jólakúlusmiðja á Bókasafni
  • Kl. 13:30-16:00 lifandi jólatónlist á sviði á Garðatorgi 4
  • Kl. 14:30 Jólaball með jólasveinum á Garðatorgi 7
  • Kl. 15:00 Jólaleikrit á Bókasafni
  • Kl. 13-16 handverk til sölu á jólamarkaði á Garðatorgi 1-4
  • Á sviði koma fram Garðasystur, Einar Örn og Matthías, Barnakór Vídalínskirkju og Blásarasveit Tónlistarskóla Garðabæjar

Hildigunnur Einarsdóttir í aðventustemningu

Hildigunnur Einarsdóttir mezzosópransöngkona og Guðrún Dalía Salomónsdóttir píanóleikari flytja gestum Tónlistarnæringar yndislega aðventudagskrá miðvikudaginn 7. desember kl. 12:15 í Tónlistarskóla Garðabæjar.

Aðgangur á tónleikana er ókeypis en menningar- og safnanefnd Garðabæjar stendur að tónleikaröðinni Tónlistarnæringu í samstarfi við Tónlistarskóla Garðabæjar. Listrænn stjórnandi er Ólöf Breiðfjörð.

Diddú og drengirnir

Diddú og drengirnir koma fram á aðventutónleikum í Vídalínskirkju í Garðabæ föstudaginn 16. desember kl. 19:30 á vegum þýska sendiráðsins. Þetta er í áttunda sinn sem sendiherra Þýskalands býður til slíkra tónleika til að styðja við þeirra mikilvægt starf Sjálfsbjargar.Á þessu ári mun Sigrún Hjálmtýsdóttir, betur þekkt sem Diddú koma gestum í hátíðarskap. Með henni leika orgelleikarinn Jóhann Baldvinsson og blásarasextett. Sextettinn hefur starfað með Diddú í ríflega 20 ár og gengur hópurinn undir nafninu Diddú og drengirnir. Þessi dáða söngkona mun syngja fyrir- og með okkur þekkt þýsk jólalög og einnig munu alþjóðlegir jólatónar hljóma. Við hlökkum til aðventukvölds með Diddú.Aðgangur er ókeypis en tekið er við frjálsum framlögum sem renna til Sjálfsbjargar. Vídalínskirkja og Garðabær styðja við viðburðinn.