Leiðbeiningar um skjánotkun barna
Mikil skjánotkun getur haft neikvæð áhrif á máltjáningu ungra barna. Félag talmeinafræðinga á Íslandi hefur sent frá sér ráð og leiðbeiningar um skjánotkun barna sem þau deila í tilefni Evrópudags talþjálfunar.
Ár hvert, þann 6. mars er Evrópudagur talþjálfunar haldinn hátíðlegur á meðal talmeinafræðinga í Evrópu, þema ársins í ár er Eflum málumhverfi barna. Dagurinn er ætlaður sem almenn vitundarvakning á störfum og þjónustu talmeinafræðinga.
Í Garðabæ starfa tveir talmeinafræðingar á leikskólasviði, það eru þær Kristín Theódóra og Sara Bjargardóttir. Kristín og Sara eru hluti af sérfræðiþjónustu Garðabæjar og sitja í skólaþjónustuteymi með öðrum fagaðilum innan Garðabæjar. Þær vilja benda foreldrum á leiðbeiningar um skjánotkun barna sem Félag talmeinafræðinga á Íslandi hefur sent frá sér.