13. maí 2022

Vífilsbúð – ný útilífsmiðstöð skáta vígð

Miðvikudaginn 11. maí sl. var ný útilífsmiðstöð skátafélagsins Vífils er nefnist Vífilsbúð vígð. Útilífsmiðstöðin Vífilsbúð er staðsett við Grunnuvötn í Heiðmörk. Með tilkomu hinnar nýju útilífsmiðstöðvar Vífilsbúðar skapast betri möguleikar á að efla áhuga barna og unglinga á starfsemi skátafélagsins enda verður húsnæðið notað til að starfrækja fjölbreytta uppeldisstarfsemi í anda skátahreyfingarinnar.

  • Vífilsbúð - ný útilífsmiðstöð skátafélagsins Vífils í Heiðmörk

Miðvikudaginn 11. maí sl. var ný útilífsmiðstöð skátafélagsins Vífils er nefnist Vífilsbúð vígð. Útilífsmiðstöðin Vífilsbúð er staðsett við Grunnuvötn í Heiðmörk og byggingarframkvæmdir hófust fyrir tæpum þremur árum síðan (sjá frétt frá júní 2019). Bygging útilífsmiðstöðvarinnar hefur verið lengi í farvatninu skv. viljayfirlýsingu sem var undirrituð milli Garðabæjar og skátafélagins Vífils í tilefni af 40 ára afmæli félagsins árið 2007.

Við vígsluna þakkaði Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, skátunum fyrir gott samstarf í gegnum árin og þá eljusemi sem þarf til að halda utanum byggingarframkvæmdir við útilífsmiðstöðina. Einnig flutti Gunnar Einarsson ljóð sem var samið af Arinbirni Vilhjálmssyni skipulagsstjóra Garðabæjar í tilefni vígslu hússins sem sjá má í heild sinni neðst í þessari frétt. Thelma Rún Van Erven, félagsforingi Skátafélagsins Vífils hélt stutta tölu þar sem hún minntist einnig á alla þá sjálfboðaliða félagsins sem hafa komið að uppbyggingunni. Sérstakar þakkir fékk Jónatan Smári Svavarsson sem hélt utanum verkefnið fyrir hönd skátafélagsins Vífils og Jónatan tók til máls og lýsti í stuttu máli byggingarsöguna.

Skátahöfðingi Íslands, Harpa Ósk Valgeirsdóttir, færði einnig Vífli og Garðabæ hamingjuóskir við þetta tækifæri og sagði að eftir því væri tekið hversu gott samstarf skátafélögin í Garðabæ eiga við sveitarfélagið.

Vígsla útilífstmiðstöðvar

Vígsla útilífstmiðstöðvarGarðabær útvegaði lóð undir útilífsmiðstöðina og veitti fjárframlag til framkvæmdarinnar en skátafélagið Vífill stóð að byggingu hússins og bar ábyrgð á framkvæmdunum. Útilífsmiðstöðin er um 200 m² að stærð að gólffleti en svefnloft er um 100 m². Stærð lóðarinnar er um 3000 m². Sigurður Hallgrímsson, Sigurður Hallgrímsson, hjá Arkþing arkitektum, er hönnuður hússins og Verkís sá um verkfræðilega hönnun og ráðgjöf og Hnullungur ehf sá um jarðvegsvinnu og vegagerð.

Eitt öflugasta skátafélag landsins

Skátafélagið Vífill í Garðabæ er eitt öflugasta skátafélag landsins en félagið var stofnað á Sumardaginn fyrsta árið 1967. Félagið heldur úti fjölbreyttu starfi allan ársins fyrir börn, ungmenni og fullorðna. Vífill á bækistöð í Jötunheimum þar sem félagsstarfið fer að mestu fram en sú bygging er staðsett við Bæjarbraut og er að hálfu í eigu Vífils og að hálfu í eigu Hjálparsveitar skáta í Garðabæ. Einnig á félagið eldri skátaskála í Heiðmörk sem einnig nefnist Vífilsbúð en nú tekur hin nýja Vífilsbúð við hlutverki eldra hússins og gott betur.

Með tilkomu hinnar nýju útilífsmiðstöðvar Vífilsbúðar skapast betri möguleikar á að efla áhuga barna og unglinga á starfsemi skátafélagsins enda verður húsnæðið notað til að starfrækja fjölbreytta uppeldisstarfsemi í anda skátahreyfingarinnar.

Garðabær getur jafnframt notað húsnæðið fyrir tómstunda- og fræðslustarfsemi á vegum leik- og grunnskóla bæjarins skv. samningi við skátafélagið Vífil. Einnig verður skoðað hvernig hægt er að nýta hina nýju Vífilsbúð sem áningarstað í útivist almennings t.d. í skipulögðum útivistarviðburðum í Heiðmörk á vegum bæjarfélagsins og skátafélagsins.

Vífilsbúð – ljóð í tilefni vígslunnar

Höf. Arinbjörn Vilhjálmsson

Við Grunnuvötn í grunnum dal
í gróðurreitnum kæra
loksins þenna skála skal
skátunum nú færa.

Skálinn nú í brekku breitt
brosir móti sól.
Hér verður á könnu kakó heitt
kaffi og sálarskjól.

Hér allt mun blómstra það er mín trú
upp frá þessum degi
og eins og skáti svo ,,Ging-gang-gú
gúlí-gúlí,, ég segi.

Er hér vel að öllu hlúð
og ekki neitt til baga.
Góðar vættir Vífilsbúð
verndi alla daga!!