7. maí 2020

Öll ungmenni 17-25 ára með lögheimili í Garðabæ fá sumarstörf

Á fundi bæjarráðs Garðabæjar 5. maí sl. var samþykkt að gera ráð fyrir því að ráða öll ungmenni sem sótt hafa um sumarstarf hjá bænum í sumarvinnu í sumar. Um er að ræða ungmenni með lögheimili í Garðabæ á aldrinum 17-25 ára

Á fundi bæjarráðs Garðabæjar 5. maí sl. var samþykkt að gera ráð fyrir því að ráða öll ungmenni sem sótt hafa um sumarstarf hjá bænum í sumarvinnu í sumar. Um er að ræða ungmenni með lögheimili í Garðabæ á aldrinum 17-25 ára sem hafa sótt um sumarstörf áður en umsóknarfrestur rann út og einnig þau ungmenni sem voru búin að skrá sig á biðlista fyrir sumarstörfum.  Til viðbótar er verið að vinna að nýjum sumarstörfum fyrir aldurinn 18-25 ára  auk starfa í umhverfishópum fyrir 17-18 ára sem verða auglýst á vef Garðabæjar 15. maí nk. og þá verður opnað fyrir umsóknir um þau störf.  Við skipulag á fyrirkomulagi vinnu er miðað við að vinnutími verði allt að 7 vikur en nánari útfærsla á vinnutíma er til skoðunar. 

Alls sóttu 236 ungmenni um sumarvinnu hjá Garðabæ á áður auglýstum umsóknarfresti. Frá því að umsóknarfrestur rann út 9. mars sl. hafa ungmenni geta skráð sig á biðlista fyrir sumarstörfum og alls eru nú um 199 ungmenni skráð á biðlistanum. Í fjárhagsáætlun Garðabæjar var launakostnaður fyrir sumarstörf áætlaður um 120 mkr. Ef allir sem sóttu um áður en umsóknarfresti lauk og þeir sem skráðir eru á biðlista fá störf í sumar er heildarkostnaður við sumarstörfin áætlaður um 315 mkr.

Ný og áhugaverð störf í sumar

Á fundi bæjarráðs Garðabæjar þann 5. maí voru kynntar hugmyndir að nýjum sumarstörfum sem gætu komið til greina í atvinnuátaki fyrir ungt fólk en í undirbúningi er að sækja um fjárveitingar til Vinnumálastofnunar vegna þessara nýju starfa. Meðal nýrra starfa sem verið er að horfa til í sumar eru fjölbreytt umhverfisstörf, störf á sviði skapandi lista, störf sem snúa að stjórnsýslu og þjónustu við bæjarbúa, störf sem tengjast nýsköpun og stafrænni þjónustu, störf sem tengjast velferð og vellíðan í heilsueflandi samfélagi. 

Umsóknir um sumarstörf - 15. maí nk.

Gert er ráð fyrir að opna fyrir rafrænar umsóknir um nýju sumarstörfin 15. maí nk. á ráðningarvef Garðabæjar . Nánari upplýsingar um störfin verða sett inn hér á vef Garðabæjar þann 15. maí nk.  Athugið ungmenni sem þegar hafa skráð sig á biðlista um sumarstörf fá tölvupóst á næstu dögum með nánari upplýsingum. 

Fjölbreytt sumarstörf á liðnum árum

Mörg undanfarin ár hefur Garðabær veitt ungu fólki í bænum fjölbreytt sumarstörf m.a. í umhverfishópum við fegrun bæjarins, í stofnunum bæjarins s.s. leikskólum, söfnum, félagsmiðstöðvum eldri borgara, þjónustumiðstöð og bæjarskrifstofum Garðabæjar. Garðabær hefur einnig verið með sumarstörf á heimilum fatlaðs fólks, flokksstjórastörf við vinnuskóla Garðabæjar og sumarstörf hjá íþrótta- og tómstundafélögum í bænum. Auk þess að bjóða sumarstörf fyrir ungmenni 17 ára og eldri hafa ungmenni í Garðabæ á aldrinum 14-16 ára fengið vinnu á sumrin í Vinnuskóla Garðabæjar.