Vistvænar samgöngur í brennidepli
Evrópsk Samgönguvika hefst þriðjudaginn 16. september og eru Garðbæingar hvattir til þátttöku með því að velja vistvæna samgöngumáta til að komast leiðar sinnar, t.d. nota strætó, ganga eða hjóla.
Evrópsk Samgönguvika hefst á morgun en er hún haldin 16. – 22. september ár hvert. Um samstillt átak sveitarfélaga í Evrópu er að ræða þar sem vistvænar samgöngur eru í brennidepli.
Markmið vikunnar er að kynna íbúum í þéttbýli samgöngumáta sem allt í senn eru vistvænir, hagkvæmir og bæta heilsu fólks um leið og þeir hafa jákvæð áhrif á umhverfi og andrúmsloft.
Þema samgönguviku í ár 2025 er Samgöngur fyrir öll.
Bíllausi dagurinn er svo haldinn 22. september og Garðbæingar eru að sjálfsögðu hvattir til þátttöku. Nánari upplýsingar og fróðleikur á Facebook-síðu Samgönguviku.
Göngu- og hjólastígar Garðabæjar
Á kortavef Garðabæjar er hægt að sjá kort yfir göngu- og hjólastíga í bænum, það er gert með því að smella á Samgöngur og haka við mismunandi gerðir stíga. Á kortavefnum er einnig hægt að velja sína eigin leið og mæla vegalengdir. Auk þess sem hægt er að skoða daglegar tölur úr hjóla- og gönguteljurum sem eru staðsettir á nokkrum stöðum í bænum.