13. des. 2021

Yfirlýsing frá bæjarstjóra

Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar sendi frá sér yfirlýsingu 13. desember um að hann muni hætta sem bæjarstjóri að loknu kjörtímabili.

  • Gunnar Einarsson bæjarstjóri
    Gunnar Einarsson bæjarstjóri

Yfirlýsing frá Gunnari Einarssyni bæjarstjóra sem var send út 13. desember 2021.

,,Undirritaður hefur ákveðið að hætta sem bæjarstjóri og oddviti meirihlutans í Garðabæ að loknu þessu kjörtímabili, en þá hef ég verið bæjarstjóri Garðabæjar í 17 ár og orðinn 67 ára gamall ef almættið lofar. Ég kom til starfa hjá Garðabæ 25 ára gamall og starfaði sem íþrótta- og tómstundafulltrúi og síðar sem forstöðumaður fræðslu- og menningarsviðs áður en ég var ráðinn bæjarstjóri árið 2005. Ég hef varið rúmlega 40 árum starfsævi minni í þjónustu við Garðbæinga. Á þessu langa tímabili hef ég tekið virkan þátt í uppbyggingu bæjarins bæði sem embættismaður, stjórnmálamaður og þátttakandi í félagsstarfi innan bæjarmarkanna. Jafnframt hef ég fengið tækifæri frá vinnuveitandanum Garðabæ á að mennta mig til hæstu gráðu.

Við þessi tímamót er mér efst í huga þakklæti. Þakklæti fyrir að fá tækifæri til að hafa áhrif á samfélagið Garðabæ, að starfa með frábæru samstarfsfólki hvort heldur í stjórnmálum og/eða í starfi mínu sem embættismaður og síðast en ekki síst almennt góð samskipti við bæjarbúa.
Ég er stoltur af því góða samfélagi sem Garðabær er. Það bíður annarra að leiða starfið áfram, vonandi með það viðhorf að alltaf er hægt að gera betur. Við verðum aldrei búin með verkefnið. Með von um áframhaldandi farsæld fyrir Garðabæ.

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar"