3. mar. 2021 Framkvæmdir

16 ný hleðslustæði fyrir rafbíla í Garðabæ

Garðabær og Veitur hafa í samstarfi sett upp 16 ný rafbílastæði á fjórum stöðum í Garðabæ. Rekstraraðili stöðvanna er Orka náttúrunnar. Á hverri staðsetningu er stæði fyrir fjóra rafbíla í hleðslu.

  • Hleðslustöð við FG
    Hleðslustöð við Mýrina og FG

Garðabær og Veitur hafa í samstarfi sett upp 16 ný rafbílastæði á fjórum stöðum í Garðabæ. Rekstraraðili stöðvanna er Orka náttúrunnar. Á hverri staðsetningu er stæði fyrir fjóra rafbíla í hleðslu.

Veitur og Garðabær gerðu með sér samkomulag um uppbyggingu innviða fyrir hleðslu rafbíla í bænum árið 2019. Markmiðið með samningnum var að koma upp hleðslubúnaði fyrir rafbíla þeim til afnota sem síður geta komið slíkum búnaði upp heima fyrir og starfsfólki Garðabæjar. Þjónustuaðili fyrir nýju hleðslustöðvunum er Orka náttúrunnar.

Nú eru hleðslurnar komnar upp og hefur verið komið fyrir við fjóra vel valda staði í Garðabæ; við Línakur rétt hjá leikskólanum Ökrum, við skóla- og íþróttasvæðið í Mýrinni hjá Hofsstaðaskóla og Fjölbrautaskólanum í Garðabæ, við Tónlistarskóla Garðabæjar í Kirkjulundi og við Löngulínu hjá Sjálandsskóla. Með þessari innviðauppbyggingu er tekið stórt skref til að efla orkuskipti og koma til móts við þarfir allra rafbílaeigenda, þ.m.t. einstaklinga, fyrirtækja og stofnanir. Fyrir voru þrjár hleðslustöðvar ON í Garðabæ; í bílakjallaranum á Garðatorgi, við Ásgarð og við Álftaneslaug.

Hleðslustöðvarnar opnar allan sólarhringinn

„Þessi hleðslukrútt, eins og við köllum þær, geta hlaðið að hámarki 22kW. Þær eru tilvaldar fyrir t.d. kennara sem geta þá hlaðið rafbílinn á meðan þeir eru í vinnunni. Að kvöldi geta síðan íbúar í hverfinu nýtt sér hleðslurnar. Hleðslurnar eru sem sagt opnar fyrir alla, allan sólarhringinn“, segir Berglind Rán Ólafsdóttir framkvæmdastýra Orku náttúrunnar.

Til að geta nýtt sér hleðslurnar þurfa rafbílaeigendur að vera með ON lykil. Verðið er 25kr/kWst og 0,5 kr/mín. Á vef ON er hægt að sjá nánari upplýsingar um gjaldskrá og þar er hægt að skoða
staðsetningar hleðslustöðvanna og í hleðsluappinu (ON Hleðsla).

Umhverfisvænir samgöngukostir

Bæði Veitur og Garðabær hafa sett sér metnaðarfull og nauðsynleg loftslagsmarkmið og aðgerðaáætlanir til að ná þeim. Auk eigin starfsemi ná áætlanir þeirra til að sporna við hlýnun jarðar einnig til þess að auðvelda almenningi að draga úr sinni losun.
,,Unnið hefur verið að því að styðja við umhverfisvæna samgöngukosti í Garðabæ á ýmsan máta á undanförnum árum og gott aðgengi að hleðslustöðvum fyrir rafbíla íbúa skiptir þar miklu máli enda hafa íbúar Garðabæjar verið fremstir meðal jafningja þegar kemur að rafbílanotkun hér innanlands.
Einnig hefur verið lögð áhersla á gerð nýrra og endurbætur á göngu- og hjólastígum í bænum og strætóskýlum hefur verið fjölgað enda alltaf fleiri íbúar sem vilja hjóla, ganga og nýta almenningssamgöngur og lykilatriði að styðja vel við vistvænar samgöngur í allri uppbyggingu í bænum.“ segir Guðbjörg Brá Gísladóttir, deildarstjóri umhverfis- og framkvæmda hjá Garðabæ.

Hleðslustöð við Löngulínu hjá Sjálandsskóla

Hleðslustöð við leikskólann AkraHleðslustöð við Tónlistarskóla Garðabæjar við Kirkjulund