23. ágú. 2024 Framkvæmdir

30 ára göngubrú við Vífilsstaðavatn endurnýjuð

Framkvæmdir við endurnýjun á göngubrúnni í friðlandi við Vífilsstaðavatn hefjast 27. ágúst. Áhersla verður lögð á að lágmarka allt rask á svæðinu á meðan á viðgerð stendur.

  • Göngubrúin við Vífilsstaðavatn endurnýjuð
    Þriðjudaginn 27. ágúst hefjast framkvæmdir á göngubrúnni í friðlandi Vífilsstaðavatns.

Þriðjudaginn 27. ágúst hefjast framkvæmdir á göngubrúnni í friðlandi Vífilsstaðavatns. Umrædd brú var smíðuð á staðnum árið 1994 af þáverandi smið bæjarins. Sumarið 2022 kom í ljós fúi í burðarbita og gat á brúargólfi. Ráðist var í viðgerð á þeim skemmdum til að tryggja öryggi gesta friðlandsins. Við nánari skoðun og við viðgerð kom í ljós að tímabært væri að endurnýja þessa 30 ára göngubrú.

Umhverfis Vífilsstaðavatn er útivistarstígur sem er um 2,6 km að lengd, þar af er göngubrúin vestan við vatnið. Á meðan á viðgerð göngubrúarinnar stendur verður ekki hægt að ganga allan hringinn í kringum vatnið en þá er tilvalið að fara sömu leið til baka og lengja þannig gönguna.

Gongubru-stadsetning

Áhersla verður lögð á að lágmarka allt rask og tryggja öryggi vegfarenda um svæðið á meðan á framkvæmd við endurnýjun göngubrúarinnar stendur.

Framkvæmdin er á vegum Garðabæjar og Umhverfisstofnunar. Sameiginleg umsókn Garðabæjar og Umhverfisstofnunar hlaut styrk úr Landsáætlun til endurnýjunar á brúnni.

Áætluð verklok eru 13. september 2024.

107.931 heimsókn í fyrra

Vífilsstaðavatn hefur löngum verið einn vinsælasti viðkomustaður höfuðborgarsvæðisins meðal náttúruunnenda enda um mikla útivistaparadís að ræða. Teljari var settur upp við vatnið í febrúar 2019 og sýna tölur úr honum að heimsóknir að vatninu voru 107,931 talsins árið 2023. Heimsóknir eru orðnar tæplega 70 þúsund það sem af er ári 2024.