7. okt. 2020

,,Að standa með sjálfum sér" er þema forvarnaviku Garðabæjar

Hin árlega forvarnavika Garðabæjar verður haldin dagana 7.-14. október 2020. Þema vikunnar er: ,,AÐ STANDA MEÐ SJÁLFUM SÉR". 

  • Forvarnavika Garðabæjar 7.-14. október 2020
    Forvarnavika Garðabæjar 7.-14. október 2020

Hin árlega forvarnavika Garðabæjar verður haldin dagana 7.-14. október 2020. Þema vikunnar er: ,,AÐ STANDA MEÐ SJÁLFUM SÉR".  Að þessu sinni fer dagskráin aðallega fram innan skóla, í litlum hópum og á vefmiðlum.  Það er íþrótta- og tómstundaráð Garðabæjar og ungmennaráð Garðabæjar sem standa að forvarnaviku í samstarfi við skóla bæjarins, félagsmiðstöðvar o.fl. Upphaf forvarnaviku Garðabæjar hittir líka á forvarnardag sem er haldinn á landsvísu 7. október að frumkvæmdi forseta Íslands

Götuvaktin 

Götuvaktin er tilraunaverkefni sem var sett af stað í haust í Garðabæ á vegum félagsmiðstöðva Garðabæjar, Garðalundar (í Garðaskóla), Elítunnar (í Álftanesskóla) og Klakans (í Sjálandsskóla)
Tilgangur starfsins er að auka sýnileika úti í hverfunum með virku vettvangsstarfi utan opnunartíma félagsmiðstöðvanna og mynda tengingar við unglingahópana utan hins hefðbundna starfsumhverfis.

Með Götuvaktinni verður sýnileiki jákvæðra áhrifavalda meiri, unnið er gegn neikvæðum áhættuþáttum í umhverfi ungmennanna okkar og búið er til öruggt umhverfi fyrir ungmennin að þroskast í.

Fjölbreytt dagskrá forvarnaviku Garðabæjar

Fjölbreytta dagskrá forvarnaviku Garðabæjar má sjá hér í viðburðadagatalinu á vefnum. 

Í vikunni verða sýnd myndbönd/stuttmyndir á samfélagsmiðlum sem ungmennaráð Garðabæjar hefur búið til undir þema vikunnar ,,Að standa með sjálfum sér".  

Í leikskólum Garðabæjar fá nemendur að sjá áhugaverð fræðslumyndbönd sem þeir Gunnar Helgason og Felix Bergsson hafa búið til undir yfirskriftinni ,,Hvernig stöndum við með sjálfum okkur og um leið hjálpum þeim sem eru í vanda?"  

Nemendur í Sjálandsskóla og Álftanesskóla fá í vikunni að hlusta á fyrirlestra um viðhorf og staðalímyndir.  Yngri nemendur grunnskóla í 1.-4. bekk fá að vinna verkefni undir heitinu ,,Að læra mörk" og nemendur í 5.-7. bekk vinna verkefni undir heitinu ,Stattu með þér".  Í Garðaskóla fá nemendur að taka þátt í verkefni sem nefnist ,,Ofbeldisforvarnaskólinn". Kynfræðsluspilið Sleikur verður kynnt í efri bekkjum grunnskólanna.

Í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ fá nemendur að taka þátt í ljóðasamkeppni sem er haldin til að vekja athygli á baráttu gegn ofbeldi.

Líðan unglinga í Garðabæ

Í forvarnavikunni kynnir Margrét Lilja Guðmundsdóttir frá Rannsóknum og greiningu nýjustu niðurstöður úr könnun á högum og líðan grunnskólanemenda í 8.,9. og 10. bekk.  Kynningin fer fram með fjarfundum hjá kennurum og skólastjórum og einnig verður vefútsending til foreldra í grunnskólum.