30. okt. 2020

Áform um friðlýsingu Urriðakotshrauns sem fólkvangs

Umhverfisstofnun undirbýr nú friðlýsingu Urriðakotshrauns í samstarfi við Garðabæ og landeigandann sem er Styrktar-og líknarsjóður Oddfellowa. Stefnt er að því að svæðið verði friðlýst sem fólkvangur, svæði til útivistar og almenningsnota þar sem jarðmyndanir, menningarminjar og gróðurfar eru verndaðar.

  • Urriðakotshraun loftmynd Alta
    Urriðakotshraun, ljósmynd: ALTA

Umhverfisstofnun undirbýr nú friðlýsingu Urriðakotshrauns í samstarfi við Garðabæ og landeigandann sem er Styrktar-og líknarsjóður Oddfellowa. Stefnt er að því að svæðið verði friðlýst sem fólkvangur, svæði til útivistar og almenningsnota þar sem jarðmyndanir, menningarminjar og gróðurfar eru verndaðar.
Fyrsta skrefið er tekið nú með því að áformin eru auglýst og má sjá auglýsinguna hér á vef Umhverfisstofnunar.

Skipulagstillögur fólkvangs, golfvallar og útivistarsvæðis í mótun.

Garðabær og landeigandi vinna nú sameiginlega að mótun deiliskipulagstillögu fyrir fyrirhugaðan fólkvang og aðliggjandi golfvöll Golfklúbbsins Odds í Urriðakotsdölum. Samhliða því er unnið að breytingu aðalskipulags Garðabæjar sem nær til þess svæðis sem og til upplands Garðabæjar frá Vífilstaðahlíð suður að sveitarfélagsmörkum að Hafnarfjarðarbæ. Verkefnislýsingar þessara skipulagsáætlana hafa verið samþykktar í skipulagsnefnd og eru auglýstar hér á vef Garðabæjar.  

Hægt verður að senda inn athugasemdir og ábendingar bæði um friðlýsingaráformin og verkefnislýsingarnar og vísast til auglýsinga um frekari upplýsingar.

Stefnt er að því að skipulagsáætlanirnar og friðlýsingarreglurnar verði auglýst samhliða á næstu mánuðum. Þá getur almenningur áttað sig á samspili friðlýsingarinnar, útivistar og almenningsnota og tekið þátt í mótun tillagna með því að senda inn ábendingar og athugasemdir.