Alsæl með hvernig til tókst
Tónlistarhátíðin Jazzþorpið í Garðabæ er nýyfirstaðin og gekk vonum framar að sögn Ólafar Breiðfjörð menningarfulltrúa Garðabæjar.
-
Hópurinn sem á hugmyndina að Jazzþorpinu, þau Ólöf Breiðfjörð, Ómar Guðjónsson listrænn stjórnandi, upplifunarhönnuðirnir Kristín Guðjónsdóttir og Halla Kristjánsdóttir og smiðurinn og ljósmyndarinn Hans Vera.
Um síðustu helgi fór fram árlega fjölskyldu-, tónlistar- og upplifunarhátíðin Jazzþorpið í Garðabæ. Þá var Garðatorgi breytt í ævintýraheim með húsgögnum og smámunum frá Góða hirðinum, allt til sölu til styrktar Krafti. Fjöldi tónleika fór fram yfir helgina og meðal tónlistarmanna sem komu fram voru Ellen Kristjánsdóttir, Elín Hall, Samúel Jón Samúelsson Big Band, Óskar Guðjónsson og Skúli Sverrisson, Sigurður Guðmundsson og Júníus Meyvant.
Gestir í þorpinu voru himinlifandi og nutu þess að dvelja í þeirri ævintýraveröld sem Jazzþorpsgengið með Ómar Guðjónsson fremstan í flokki skapaði. Að sögn Ólafar Breiðfjörð menningarfulltrúa Garðabæjar ríkir mikil ánægja með hátíðina á meðal bæjarbúa en gestir koma víða að.
„Við erum alsæl með hvernig til tókst, það gekk ótrúlega vel að setja þorpið upp með aðstoð okkar frábæru stráka í garðyrkjunni og áhaldahúsinu. Þegar síðan kom að hátíðinni með þessum fjölbreyttu viðburðum og ótrúlegum fjölda gesta þá vorum við svo þakklát að sjá hvað allir voru glaðir og samstíga í að njóta hverrar stundar. Þannig gekk allt snurðulaust fyrir sig og á hverju kvöldi fóru glaðir gestir heim og ansi margir mættu strax aftur morguninn eftir,“ segir Ólöf.
Margt fólk naut þess að sitja í huggulegum stofum sem Jazzþorpsteymið setti upp.
Bæjarbúar voru himinlifandi með Jazzþorpið um helgina að sögn Ólafar.
Góðar veitingar settu punktinn yfir i-ið um helgina.