15. feb. 2022 Stjórnsýsla

Ánægja með þjónustu grunnskóla

Garðabær lendir í 1. sæti þegar spurt er um ánægju með þjónustu grunnskóla í samanburði við önnur sveitarfélög í árlegri þjónustukönnun Gallup sem var framkvæmd í lok árs 2021 og byrjun árs 2022.

  • Aðkomutákn Garðabæjar

Garðabær lendir í 1. sæti þegar spurt er um ánægju með þjónustu grunnskóla í samanburði við önnur sveitarfélög í árlegri þjónustukönnun Gallup sem var framkvæmd í lok árs 2021 og byrjun árs 2022.
Markmið könnunarinnar er að kanna ánægju með þjónustu 20 stærstu sveitarfélaga landsins og gera samanburð þar ásamt því að skoða breytingar frá fyrri mælingum.

Í heildina eru niðurstöður könnunarinnar góðar og Garðabær er fyrir ofan meðaltal í öllum spurningum utan einnar í samanburði við önnur sveitarfélög. Garðabær er í efstu sætum eða meðal fimm efstu í 10 af 13 spurningum. Í samanburði á milli ára þá hækkar skor í tveimur spurningum, stendur í stað í tveimur og lækkar í 8 spurningum þar af er um marktæka lækkun í þremur. Meðaltal sveitarfélaga í heild lækkar í öllum spurningum utan tveggja á milli ára þar sem það stendur í stað.

Íbúar Garðabæjar eru ánægðir með sveitarfélagið sem stað til að búa á en sú spurning fær hæsta skorið eða 4,3 (á mælikvarðanum 1-5). Í könnuninni er einnig spurt um ánægju með aðstöðu til íþróttaiðkunar, ánægju með þjónustu leikskóla, þjónustu grunnskóla, þjónustu við barnafjölskyldur, þjónustu við fatlað fólk, þjónustu í tengslum við sorphirðu, þjónustu sveitarfélagsins á heildina litið, ánægju með menningarmál, skipulagsmál og hversu vel eða illa leyst er úr erindum.

Út frá niðurstöðunum er áfram tækifæri til úrbóta í ýmsum málaflokkum, s.s. þjónustu leikskóla, sorphirðu og þjónustu við fatlað fólk.

Könnunin var framkvæmd á tímabilinu 8. nóvember 2021 til 12. janúar 2022 og svöruðu 424 spurningum um Garðabæ. Þátttakendur voru eldri en 18 ára og gagnaöflun stóð yfir þar til tilteknum fjölda var náð í sveitarfélagi fyrir sig.

Garðabær – bær í vexti


Garðabær er bær í vexti en á árinu 2021 fjölgaði íbúum um 760 eða 4,3% sem er mesta fjölgun meðal sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Með mikilli fjölgun íbúa er mikilvægt að halda þjónustu áfram góðri og þar skiptir máli að fá fram sjónarmið íbúa með árlegum könnunum eins og þjónustukönnun Gallup. Þjónustukönnunin var lögð fram til kynningar í bæjarráði Garðabæjar í morgun þriðjudaginn 15. febrúar. Niðurstöður könnunarinnar verða áfram rýndar hjá nefndum og sviðum bæjarins til að geta þróað og bætt þjónustu Garðabæjar enn betur.

Niðurstöður fyrir Garðabæ úr þjónustukönnuninni eru aðgengilegar hér á vef Garðabæjar og þar má jafnframt sjá niðurstöður til samanburðar úr eldri könnunum.

Þjónustukönnun Gallup 2021 – niðurstöður Garðabæjar
Þjónusta sveitarfélaga 2021 – viðbótarspurningar um umhverfismál
Eldri þjónustukannanir – niðurstöður Garðabæjar