5. nóv. 2019 Framkvæmdir Hafnarfjarðarvegur

Endurbætur Hafnarfjarðarvegar frá Vífilsstaðavegi að Lyngási

Markmið endurbótanna við Hafnarfjarðarveg er að auka öryggi vegfarenda og að bæta umferðarflæði með því að bæta aðgengi hliðarvega inn á Hafnarfjarðarveg. Ekki er vikið frá því markmiði að Hafnarfjarðarvegur verði síðar lagður í lokaðan stokk og gatnamót verði mislæg eins og aðalskipulag Garðabæjar gerir ráð fyrir. 

  • Framkvæmdir á Hafnarfjarðarvegi
    Framkvæmdir á Hafnarfjarðarvegi

Í byrjun árs var haldin íbúafundur þar sem tillaga að breytingum á bráðabirgða endurbótum á Hafnarfjarðarvegi á milli Vífilsstaðavegar og Lyngáss var kynnt ásamt deiliskipulagsbreytinum sem voru staðfest af skipulagsstofnun í haust. Markmið endurbótanna við Hafnarfjarðarveg er að auka öryggi vegfarenda og að bæta umferðarflæði með því að bæta aðgengi hliðarvega inn á Hafnarfjarðarveg. Ekki er vikið frá því markmiði að Hafnarfjarðarvegur verði síðar lagður í lokaðan stokk og gatnamót verði mislæg eins og aðalskipulag Garðabæjar gerir ráð fyrir. Nú í október undirritaði Garðabær ásamt fimm öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, tímamótasamkomulag við íslenska ríkið um metnaðarfulla uppbyggingu á samgönguinnviðum og almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu til fimmtán ára. Í samkomulaginu er m.a. gert ráð fyrir stokk á Hafnarfjarðarveginum á árunum 2028-2030.

Unnið er að samningum og er vonast til að geta farið með framkvæmdina í útboð á næstu vikum og þá gæti vinna hafist eftir áramót.

Umferðarflæði bætt með framkvæmdunum

Um er að ræða breikkun og endurbætur á gatnamótum Hafnarfjarðarvegar við Vífilsstaðaveg og Lyngás ásamt undirgöngum undir Hafnarfjarðarveg fyrir gangandi- og hjólandi umferð við Hraunsholtslæk, breikkun og endurbætur á Vífilsstaðavegi milli Hafnarfjarðarvegar og Litla­túns og gerð hringtorgs við Litlatún. Hraunsholtslækurinn verður einnig í undirgöngunum við hlið göngu- og hjólaleiðarinnar.

Akreinum á Hafnarfjarðarvegi er fjölgað og beygjureinum breytt og fjölgað. Tvöföld vinstri beygja verður af Hafnarfjarðarvegi inn á Vífilsstaðaveg til austurs, tvöföld vinstri beygja verður af Vífilsstaðavegi inn á Hafnarfjarðarveg bæði til norðurs og suðurs, tvöföld vinstri beygja verður af Lyngási inn á Hafnarfjarðarveg og hægri beygja af Lækjarfit í framhjáhlaupi.

Undirgöngin verða gerð úr forsteyptum einingum og er miðað við að göngin verði unnin í tveimur áföngum þannig að halda megi umferð um Hafnarfjarðarveg á tveimur akreinum í hvora átt á framkvæmdartíma.

Til framkvæmdarinnar telst einnig gerð allra vega- og stíga sem nauðsynlegar eru til að ljúka framkvæmdinni endanlega ásamt gerð hljóð­veggja með Hafnarfjarðarvegi og landmótun.

Áætlaður framkvæmdatími er eitt ár og áhersla er lögð á að byrja á undirgöngunum til að bæta öryggi fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur.

Með þessari framkvæmd verður bætt úr umferðarflæði við gatnamótin þar til hafist verður handa við að gera stokk á Hafnarfjarðarveginum skv. samgöngusamkomulagi sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og ríkisins frá því fyrr í haust. Verkið verður boðið út af Vegagerðinni og framkvæmdaraðilar verða Vegagerðin og Garðabær.