18. maí 2022

Endurtalningu lokið - sama niðurstaða

Miðvikudaginn 18. maí 2022 fór fram endurtalning í Garðabæ á atkvæðum úr sveitarstjórnarkosningunum sem fram fóru sl. laugardag. Farið var yfir flokkun á öllum atkvæðum og hvert einasta atkvæði talið upp á nýtt. Atkvæðafjöldinn skiptist með nákvæmlega sama hætti milli flokka í endurtalningunni og í upphaflegri talningu.

  • Séð yfir Garðabæ
    Séð yfir Garðabæ

Miðvikudaginn 18. maí 2022 fór fram endurtalning í Garðabæ á atkvæðum úr sveitarstjórnarkosningunum sem fram fóru sl. laugardag.  Yfirkjörstjórn Garðabæjar samþykkti endurtalningu í tilefni af erindi Garðabæjarlistans, þar sem farið var fram á endurtalningu atkvæða vegna þess hve litlu munaði á atkvæðafjölda á sjöunda manni inn í bæjarstjórn í sveitarstjórnarkosningum sem fram fóru laugardaginn 14. maí sl.

Endurtalningin fór fram í fundarsal Sveinatungu við Garðatorg 7 og viðstaddir voru umboðsmenn flokka  sem voru í framboði í Garðabæ.  Farið var yfir flokkun á öllum atkvæðum og hvert einasta atkvæði talið upp á nýtt.  Atkvæðafjöldinn skiptist með nákvæmlega sama hætti milli flokka í endurtalningunni og í upphaflegri talningu.  

Formaður kjörstjórnar, Soffía Eydís Björgvinsdóttir, færði talningarmönnum sem og öllum sem komu að framkvæmd talningar bestu þakkir fyrir fagleg vinnubrögð. 

Niðurstaða sú sama við endurtalningu atkvæða

Fjögur framboð fengu fulltrúa kjörna í bæjarstjórn:

D-listi Sjálfstæðisflokksins fékk 7 fulltrúa, 

G-listi Garðabæjarlistans fékk 2 fulltrúa, 

C-listi Viðreisnar fékk 1 fulltrúa 

B-listi Framsóknarflokks 1 fulltrúa

Lokatölurnar voru eftirfarandi:

Alls greidd atkvæði voru 8733, alls voru á kjörskrá 13 622. Kjörsókn í Garðabæ var 64,1% sem er örlítið minni kosningaþátttaka en árið 2018 (67%).

Sjá einnig frétt um kjörsókn yfir daginn hér.

Atkvæði féllu þannig
B-listi Framsóknarflokksins 1116
C-listi Viðreisnar 1134
D-listi Sjálfstæðisflokksins 4197
G-listi Garðabæjarlistans 1787
M-listi Miðflokksins 314
Auðir seðlar 145
Ógildir 40