28. ágú. 2024 Menning og listir

Fjölbreytt menningardagskrá fram undan í haust

Glæsileg menningardagskrá er kynnt í nýjum bækling sem Garðbæingar fá inn um lúguna.

  • Fjölbreytt menningarhaust í Garðabæ
    Glæsileg menningardagskrá er kynnt í nýjum bækling. Fastir liðir fyrir unga sem aldna í bland við aðra fjölbreytta og spennandi viðburði.

Fimmtudaginn 29. ágúst, ættu flestir Garðbæingar að fá dagskrárbækling inn um lúguna en hann kemur ferskur úr prentsmiðjunni og boðar menningardagskrá haustsins.

Að venju samanstendur dagskráin af ýmsum föstum liðum fyrir unga sem aldna í bland við aðra fjölbreytta og spennandi viðburði.

Meðal fastar liða á bókasafninu verða foreldramorgnar alla fimmtudaga og sögu- og söngstund fyrsta laugardag hvers mánaðar. Tónleikaröðin Tónlistarnæring fer þá fram í sal Tónlistarskólans fyrsta miðvikudag í hverjum mánuði.

Dagskráin í Hönnunarsafni Íslands verður glæsileg að vanda og verða þar reglulega opnaðar sýningar og viðburðir haldnir í tengslum við þær.

Þann 12. október fer listahátíðin Rökkvan fram á göngugötunni Garðatorgi, þar mun ungt listafólk láta ljós sitt skína. Óperugala á vegum Óperudaga fer svo fram á Garðatorgi í lok október að ógleymdum árlegum aðventutónleikum í samstarfi við Þýska sendiráðið í desember. Aðventunni verður svo að sjálfsögðu fagnað með jólaballi, föndri og húllumhæi á Garðatorgi.

Þá verða ýmis erindi og áhugaverðir fyrirlestrar haldnir á Hönnunarsafni Íslands og á Bókasafni Garðabæjar í allt haust. Við mælum með að kíkja vandlega yfir dagskrána því af nógu verður að taka og ættu öll að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Hægt er að nálgast eintak af bæklingnum á Bókasafni Garðabæjar, Hönnunarsafninu eða í þjónustuveri á Garðatorgi 7.