13. nóv. 2020

Fjölbreyttir rafrænir menningarviðburðir og þættir

Kristín Helga Gunnarsdóttir rithöfundur fer með áhorfendur í sögugöngu og Ullarló könguló leiðir gesti um sýningu Hönnunarsafnsins í nýjum rafrænum menningarþáttum Garðabæjar. Fylgist með beinu streymi frá Bókasafni Garðabæjar og Hönnunarsafni Íslands og fjölbreyttum rafrænum menningarþáttum Garðabæjar á netinu. 

  • Ullarló könguló
    Ullarló könguló leiðir gesti um sýningu Hönnunarsafnsins á netinu

Vegna Covid hefur ekki verið hægt að halda úti menningarstarfi með hefðbundnum hætti í vor og haust og menningin er því færð inn á heimili íbúa með rafrænum hætti þetta árið. Bæði með beinu streymi frá Bókasafni Garðabæjar og Hönnunarsafni Íslands og einnig með upptöku rafrænna menningarþátta á vegum menningar- og safnanefndar Garðabæjar sem eru birtir á vimeorás sem heitir Menning í Garðabæ. 

Nýtt efni vikulega

Rafrænir menningarþættir hafa verið teknir upp í haust og á undanförnum vikum hefur nýr þáttur verið birtur vikulega á vimeorásinni og einnig hefur þeim verið deilt á fésbókarsíðu Garðabæjar.
Nýir þættir:

  • Kristín Helga Gunnarsdóttir rithöfundir og bæjarlistamaður Garðabæjar árið 2011 fer með áhorfendur í sögugöngu og les upp úr bókum sínum. 

 

Kristín Helga Gunnarsdóttir rithöfundur

  • Komið í leiðangur um sýninguna 100% ULL á Hönnunarsafni Íslands í fylgd með köngulónni Ullarló. Í lok leiðsagnar sýnir Ullarló okkur hvernig er hægt að skapa úr greinum og ullarbandi heima.

Ullarló könguló

Beint streymi frá Bókasafni Garðabæjar - Gerður Kristný - bókaspjall 2020

Gerður Kristný rithöfundur les úr splunkunýrri barnabók, Iðunn & og afi pönk, í beinu streymi á Facebook síðu Bókasafns Garðabæjar laugardaginn 14. nóvember kl. 13. 

Bókaspjall Bókasafns Garðabæjar verður haldið þriðjudagskvöldið 17. nóvember nk. kl. 20 í beinu streymi á fésbókarsíðu safnsins. Vilborg Davíðsdóttir kemur með nýja sögulega skáldsögu Undir Yggdrasil, Hallgrímur Helgason les úr nýrri ljóðabók Við skjótum títuprjónum, Katrín Júlíusdóttir mætir með sína fyrstu bók, glæpasöguna Sykur og Gunnar Þór Bjarnason verður með sagnfræðilegt verk sitt Spænska veikin í farteskinu. Sjá nánar hér í viðburðadagatalinu.