16. des. 2022

Fjölmargir tónleikar á aðventunni

Fjölmargir menningarviðburðir hafa verið í boði á aðventunni í Garðabæ og verða áfram í desember. Framundan eru tónleikar með Diddú ásamt blásarasextett, tónleikar Gospelkórs Jóns Vídalín og kertaljósatónleikar Camerarctica. 

Fjölmargir menningarviðburðir hafa verið í boði á aðventunni í Garðabæ og verða áfram í desember. Í viðburðadagatalinu á vef Garðabæjar er hægt að sjá nánari upplýsingar um hvern viðburð. Hægt er að senda inn upplýsingar um viðburði í Garðabæ á netfang Garðabæjar, gardabaer@gardabaer.is til að fá þá birta í viðburðadagatalinu.

Viðburðadagatal á vef Garðabæjar.

Auk þess eru flest allir viðburðirnir kynntir á facebook á vegum þeirra sem halda viðburðina. Hér fyrir neðan eru nokkrir menningarviðburða á aðventunni framundan taldir upp.

Innpökkun og lestur á Bókasafninu

Vistvæn innpökkunarstöð á Bókasafni Garðabæjar, Garðatorgi verður í boði á safninu á Garðatorgi til 23. desember. Gamlar bækur og gömul tímarit eru nýtt og garn og fleira sem er til á bókasafninu.
Öllum velkomið að koma með efni á innpökkunarstöðina og svo auðvita nýta sér hana.
Alltaf hægt að grípa í góða bók eða tímarit á safninu eða kíkja á leshringinn sem hittist 20. desember kl. 18 á safninu á Garðatorgi.

Diddú og drengirnir

Diddú og drengirnir koma fram á aðventutónleikum í Vídalínskirkju í Garðabæ föstudaginn 16. desember kl. 19:30 á vegum þýska sendiráðsins. Þetta er í áttunda sinn sem sendiherra Þýskalands býður til slíkra tónleika til að styðja við þeirra mikilvægt starf Sjálfsbjargar.Á þessu ári mun Sigrún Hjálmtýsdóttir, betur þekkt sem Diddú koma gestum í hátíðarskap. Með henni leika orgelleikarinn Jóhann Baldvinsson og blásarasextett. Sextettinn hefur starfað með Diddú í ríflega 20 ár og gengur hópurinn undir nafninu Diddú og drengirnir. Þessi dáða söngkona mun syngja fyrir- og með okkur þekkt þýsk jólalög og einnig munu alþjóðlegir jólatónar hljóma. Við hlökkum til aðventukvölds með Diddú. Aðgangur er ókeypis en tekið er við frjálsum framlögum sem renna til Sjálfsbjargar. Vídalínskirkja og Garðabær styðja við viðburðinn.
Sjá nánar hér. 

Gospelkór Jóns Vídalín

Árlegir jólatónleikar gospelkórs Jóns Vídalín verða haldnir í Vídalínskirkju sunnudagskvöldið 18. desember kl. 20:00.  Sjá nánar hér. 

Mozart við kertaljós 

Mozart við kertaljós verður með tónleika í Garðakirkju miðvikudaginn 21. desember kl. 21:00.
Hópurinn Camerarctica hefur leikið ljúfa tónlist eftir Mozart í þrjátíu ár rétt fyrir jólin og þykir mörgum ómissandi að koma úr miðri jólaösinni inn í kyrrðina og kertaljósin í rökkrinu. Hópinn skipa að þessu sinni þau Ármann Helgason, klarinettuleikari, Eydís Franzdóttir óbóleikari, Hildigunnur Halldórsdóttir og Bryndís Pálsdóttir fiðluleikarar, Svava Bernharðsdóttir víóluleikari og Sigurður Halldórsson sellóleikari.

Sjá nánar hér.