3. apr. 2020

Framkvæmdir hefjast á miðsvæði Álftaness

Framkvæmdir við uppbyggingu fjölbýlishúsabyggðar í Breiðamýri á Álftanesi eru nú komnar af stað. Garðabær hefur gert verksamning við verktakafyrirtækið Loftorku ehf um gatnagerðarframkvæmdir í kjölfar útboðs sem nýverið fór fram. 

  • Uppbygging hafin í Breiðamýri
    Uppbygging hafin í Breiðamýri

Framkvæmdir við uppbyggingu fjölbýlishúsabyggðar í Breiðamýri á Álftanesi eru nú komnar af stað. Garðabær hefur gert verksamning við verktakafyrirtækið Loftorku ehf um gatnagerðarframkvæmdir í kjölfar útboðs sem nýverið fór fram.

Af því tilefni komu bæjarstjóri, bæjarfulltrúar og embættismenn á tækni- og umhverfissviði Garðabæjar saman á staðnum ásamt fulltrúum verktakans til að fagna þessum merka áfanga. Vegna samkomubannsins sem alllir þurfa að taka tillit til þá var þess gætt að hæfileg fjarlægð var á milli manna í Breiðamýri. Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, hélt stutt ávarp af þessu tilefni og minntist sérstaklega á það hvað það væri ánægjulegt og mikilvægt á þessum alvarlegu tímum að horfa fram á veginn á jákvæðan hátt.

Göturnar Hestamýri, Grásteinsmýri og Lambamýri

Í lok janúar voru lóðir við Breiðamýri auglýstar til sölu og nú standa yfir viðræður við þá aðila sem hafa boðið í allar lóðirnar. Samkvæmt deiliskipulagi munu allt að 252 íbúðir verða byggðar í Breiðamýri við þrjár götur sem hafa hlotið heitið Hestamýri, Grásteinsmýri og Lambamýri. Við hverja götu verða þrjár fjölbýlishúsasamstæður á 2-3 hæðum með íbúðum sem munu allar liggja að opnum grænum svæðum sem teygja sig inn á milli húsanna. Eftir miðju svæðinu mun renna lækur á milli grunnra settjarna þangað sem ofanvatni verður beint með sjálfbærum lausnum. 

Uppbygging framundan

Nú liggur einnig fyrir deiliskipulag fyrir raðhúsabyggð í Króki á opna svæðinu sunnan og austan Sviðholts, einbýlishúsabyggð á svæðinu sem er kallað Helguvík og er á opna svæðinu sunnan Þórukots og svo parhúsabyggð í Kumlamýri sem er sunnan og vestan við hringtorgið á móts við Bessastaði. Á þessum deiliskipulögðu svæðum á Miðsvæði og Suðurnesi er alls gert ráð fyrir 366 nýjum íbúðum. Einnig er unnið að mótun deiliskipulags í Norðurnesi sem verður kynnt nánar síðar í vor.

Hér má sjá upplýsingar um deiliskipulag í Breiðamýri, Króki, Helguvík og Kumlamýri.