Garðabær er fyrst og fremst saga um fólk
Ræða Almars Guðmundssonar, bæjarstjóra Garðabæjar, frá hátíðarfundi bæjarstjórnar Garðabæjar sem haldinn var þann 6. janúar.
Kæru Garðbæingar. Kæru gestir. Bæjarfulltrúar, fyrrverandi kjörnir fulltrúar, starfsfólk bæjarins, fulltrúar félaga, stofnana og fyrirtækja — og allir sem eru hér með okkur í dag. Til hamingju með daginn.
Í dag fögnum við merkum áfanga: 50 árum frá kaupstaðarréttindum Garðabæjar og ég ætla að byrja á því að bjóða ykkur í örstutta ferð.
Sýningin Aftur til Hofsstaða á Garðatorgi er margmiðlun af bestu gerð. Þar er hægt að ferðast fram og aftur í tímann með því að snúa kvarnarsteininum.
Tímavélin stoppar fyrir fimmtíu árum
Hugsum okkur að tímavélin stoppi fyrir nákvæmlega fimmtíu árum. Við erum stödd á Garðaholti — en umhverfið er annað en nú. Í sal sitja fimm menn á sviði, hreppsnefnd Garðahrepps, og í salnum eru gestir, bæjarbúar og fólk sem hefur fylgst með breytingum og jafnvel barist fyrir þeim. Hreppsnefndarmennirnir flytja nýjan boðskap: Í samræmi við nýsett lög frá Alþingi er Garðahreppur ekki lengur kauptún — heldur kaupstaður. Meiri réttindi, meiri ábyrgð, meira sjálfsforræði í eigin málum. Það léttir yfir. Verulegur áfangasigur hefur náðst og framtíðin virðist bjartari en áður.
En það er líka mikilvægt að muna: Kaupstaðarréttindi komu ekki af sjálfu sér. Þau voru mikils virði og eftirsótt. Og Garðabær fékk þau á sérstökum forsendum, því ólíkt mörgum öðrum stöðum var Garðahreppur ekki hefðbundið sjávarpláss sem hafði vaxið upp úr útgerð og sjósókn. Þvert á móti var sagan sú að hér varð til þéttbýli á ótrúlega skömmum tíma.
Við eigum að þakka þáverandi hreppsnefnd, sem svo varð fyrsta bæjarstjórn Garðabæjar, fyrir framsýnina og dugnaðinn.
Förum lengra aftur
Og þá lætur tímavélin okkur kíkja lengra aftur. Við förum aftur til landnámsaldar. Þá voru aðeins tveir nafngreindir bæir á svæðinu: Vífilsstaðir upp til fjalla og Skúlastaðir skammt frá sjónum á nesinu sem síðar fékk heitið Álftanes. Fljótlega reis meiri byggð og nafnið Garðar — sem merkir í raun húsaþyrping — festist við bæinn og nánasta umhverfi.
Sagan á Álftanesi tekur svo nýja stefnu þegar Bessastaðir verða aðsetur konungsvaldsins, ekki síst vegna hafnarskilyrða sem náttúran sjálf lagði til. Og þar liggur ein af sérstökum rótum Garðabæjar: við búum ekki bara í fallegu sveitarfélagi — við búum á svæði sem er hluti af þjóðarsögu og stjórnsýslusögu Íslands.
Og Bessastaðir eru í dag forsetasetur Íslands — tákn um sjálfstæði, þjóðlíf og sameiginlega ábyrgð. Það er merkilegt að hafa slíkan stað í okkar sveitarfélagi; stað sem tengir heimabyggð og þjóðarsál með svo skýrum hætti.
En svo koma líka átök — því það er hluti af sögu hvers samfélags. Í frásögninni sem ég styðst við mætast tveir höfðingjar: Grímur Thomsen á Bessastöðum og séra Þórarinn Böðvarsson á Görðum. Stórlyndir menn, metnaðarfullir og ráðríkir, hvor á sinn hátt — og þegar slíkir menn lenda saman verður sjaldan koppalogn.
Og endirinn verður sá að reglustika er lögð á kort af nesinu þar sem það er mjóst milli Lambúsatjarnar og Skógtjarnar. Árið 1878 verður til Bessastaðahreppur öðrum megin og Garðahreppur hinum megin.
Garðahreppur breytist
Árið 1908 fær Hafnarfjörður kaupstaðarréttindi og er þá ekki lengur hluti Garðahrepps. Garðahreppur verður að mestu aftur sveitahreppur þar sem landbúnaður er undirstaða. Svo koma erfiðir tímar, sérstaklega árin kringum fyrri heimsstyrjöldina. Skortur, atvinnuleysi og óvissa. Hreppsnefndarmennirnir þurfa oft að glíma við það að tryggja einfaldlega að fólk hafi í sig og á. En á millistríðsárunum fer að rétta úr kútnum. Búskapur eflist, vélvæðing kemur til sögunnar og til er sagan um kúabú á Vífilsstöðum sem var um tíma með þeim stærri á landinu. Bjartsýnin fer að vakna. Og þá kemur stóra vendingin, sú sem er í raun undirstaða þess sem við fögnum í dag.
Í Garðahreppi mótast framtíðarþéttbýli á fáum árum. Og þar skipta áræði og framsýni einstaklinga sköpum.
Ungur maður kemur til sögunnar, Eyjólfur Jóhannsson, framfarasinnaður og athafnamikill. Hann tengir atvinnurekstur, húsbyggingar og búsetu saman á nýjan hátt. Þegar starfsmenn hans þykjast hafa of langt að sækja vinnu úr Reykjavík verður lausnin sú að þeir fá lóðir í nágrenni við vinnustaðinn og byggja sér hús. Þar með fer boltinn að rúlla.
Hverfið fær heitið Silfurtún og byggist upp á ótrúlega skömmum tíma — ein gata af annarri. Ungt fólk, barnmargar fjölskyldur, lágreist hús, líf og fjör. Og það sem mér finnst sérlega fallegt í þessari frásögn er að frumkvöðlarnir voru ekki bara nýir íbúar, heldur líka bændur og leiðtogar á svæðinu sem sáu fram á að framtíðin krafðist vatnsveitu, skóla, landakaupa og þjónustu.
Þéttbýlið kallaði á þjónustu — og þjónustan byggði upp þéttbýlið. Og þannig komum við aftur til ársins 1976, þegar Garðabær fær kaupstaðarréttindi.
Tölurnar sem segja söguna
Við skulum staldra við tvær staðreyndir sem eru einfaldar en segja ótrúlega sögu: 1. janúar 1976 bjuggu 4.108 í Garðabæ og 309 á Álftanesi og Bessastaðahreppi — samtals 4.417. Og í dag, þegar við erum hér saman — 6. janúar 2026 — búa í Garðabæ 21.259. Þetta er ekki bara mannfjöldi. Þetta er mælikvarði á samfélag sem hefur vaxið — og lært að vaxa með gæðum.
Síðustu fimmtíu árin höfum við séð Garðabæ styrkjast í skrefum. Og hvert skref hefur kallað á jafnvægi: skipulag, innviði og ekki síst samfélagsanda. Við sjáum það í hverfunum sem hafa risið og þróast. Við sjáum það í þeim ákvörðunum sem teknar hafa verið, stundum erfiðum, oft framsýnum, alltaf með það markmið að hér sé gott að búa.
Við sjáum það líka í því að Garðabær hefur ítrekað valið að byggja ekki bara hús, heldur hverfi með sál og nóg pláss í almannarýminu. Við höfum auðvitað byggt upp heilu samfélögin: með skólum, leikskólum, íþróttaaðstöðu, menningu og þjónustu.
Svo gerðist það í upphafi árs 2013 að Garðabær og Álftanes sameinuðust, gamli Garðahreppur og gamli Bessastaðahreppur runnu aftur saman. Það hefur svo sannarlega styrkt og eflt heildarmyndina og samfélagsandann.
Við fögnum líka fólkinu
En Garðabær er ekki bara saga um deiliskipulag, gatnaframkvæmdir, skólabyggingar og önnur mannvirki. Garðabær er fyrst og fremst saga um fólk.
Við höfum heiðrað einstaklinga sem mótuðu samfélagið og hugsjónir þess. Þar má nefna heiðursborgara Garðabæjar: séra Braga Friðriksson og Ólaf G. Einarsson, sem hvort á sinn hátt stendur fyrir það sem bærinn byggir á: framtak, samfélagsþróun, hugmyndir og þjónustu við heildina.
Ég nefni sérstaklega forvera mína í starfi bæjarstjóra með virðingu og þökk: Garðar Sigurgeirsson, Jón Gauta Jónsson heitinn, Ingimund Sigurpálsson, Ásdísi Höllu Bragadóttur og Gunnar Einarsson.
En við fögnum líka þúsundum ónefndra Garðbæinga: foreldrum sem byggja upp skólasamfélög, sjálfboðaliðum sem halda úti margþættu félagslífi, starfsfólki í leikskólum, skólum, þjónustu og umönnun, íþrótta- og menningarfólki sem skapar samstöðu og fyrirtækjum sem skapa störf og líf í bænum.
Ekki bara upprifjun
Kæru gestir. Afmæli er ekki bara upprifjun. Afmæli er líka stefnumótun. Þegar við lítum yfir fimmtíu ár — þá sjáum við að Garðabær hefur orðið til úr samspili framtaks og samstöðu, úr metnaði og vinnu. Úr því að fólk hefur lagt hönd á plóg — oft án þess að gera mikið úr því. Þess vegna vil ég að afmælisárið 2026 standi fyrir eitthvað einfalt og sterkt: að við höldum áfram að byggja Garðabæ með skynsemi og metnaði. Að við tryggjum að þjónustan fylgi vextinum. Að við séum áfram bær þar sem er gott að ala upp börn — og eldast með reisn. Að við notum tækni og nýjungar til að bæta líf fólks — en glötum aldrei mannlegu hliðinni: nálægðinni, samkenndinni og samfélagsandanum. Og ef við endum þar sem við byrjuðum — með því að snúa kvarnarsteininum áfram — þá væri það kannski dýrmætasti lærdómurinn: við þurfum ekki raunverulega tímavél til að sjá kraftaverk. Við sjáum þau í því sem hefur verið byggt hér, skref fyrir skref, kynslóð fyrir kynslóð. Og við sjáum þau í því að 21.259 manns kalla Garðabæ heimili sitt í dag.
Kæru Garðbæingar: Til hamingju með 50 ára kaupstaðarréttindi. Takk fyrir að byggja Garðabæ — og takk fyrir að halda áfram að byggja hann með okkur. Takk fyrir.
Sjá einnig: Tillaga um samfélags- og viðburðarhús samþykkt á hátíðarfundi
