Göngum öll í skólann í september
Markmið verkefnisins Göngum í skólann er að hvetja börn til að tileinka sér virkan ferðamáta í og úr skóla og að fræða þau um umferðaröryggi.
Á morgun, miðvikudaginn 4. september, hefst árlega verkefnið Göngum í skólann í átjánda sinn. Ár hvert taka milljónir barna frá 40 löndum víðs vegar um heiminn þátt í Göngum í skólann með einum eða öðrum hætti. Með verkefninu eru börn hvött til að tileinka sér virkan ferðamáta í og úr skóla, til dæmis að ganga, hjóla, hlaupa eða taka strætó. Helsta markmið verkefnisins er að auka færni barna til að ferðast á öruggan hátt í umferðinni. Auk þess er reynt að stuðla að vitundarvakningu um umhverfismál.
Göngum í skólann verður sett á morgun og lýkur því formlega miðvikudaginn 2. október.
Við hvetjum nemendur í skólum Garðabæjar til þátttöku. Sömuleiðis hvetjum við foreldra þeirra til að leggja sitt af mörkum með því að fræða börn sín um ávinning reglulegrar hreyfingar og því að draga úr umferðarþunga, mengun og hraðakstri nálægt skólum.
Nánari upplýsingar um Göngum í skólann er að finna á vef verkefnisins www.gongumiskolann.is.
Göngum í skólann er verkefni á vegum Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, Embætti landlæknis, mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Ríkislögreglustjóra, Samgöngustofu, Slysavarnarfélagsins Landsbjargar og Heimilis og skóla.