Hafliði Kristinsson er Garðbæingurinn okkar 2024
Garðbæingurinn okkar var útnefndur í dag við hátíðlega athöfn. Það er Hafliði Kristinsson, formaður íbúasamtakanna í Urriðaholti og fjölskyldu- og hjónabandsráðgjafi, sem er Garðbæingurinn okkar 2024.
-
Almar Guðmundsson, Margrét Bjarnadóttir, Páll Ásgrímur, Hafliði Kristinsson, Ingimundur Orri Jóhannsson, Birna Guðmundsdóttir og Hrafnhildur Sigurðardóttir.
Garðbæingurinn okkar 2024 er Hafliði Kristinsson, formaður íbúasamtakanna í Urriðaholti og fjölskyldu- og hjónabandsráðgjafi.
Garðabær óskaði eftir tilnefningum frá bæjarbúum og bárust 111 fjölbreyttar tilnefningar. Tilnefningarnar voru svo bornar undir dómnefn en hana skipuðu þau Birna Guðmundsdóttir Hrafnhildi Sigurðardóttur og Ingimundur Orri Jóhannsson. Dómnefnd útnefndi Hafliða sem Garðbæing ársins 2024 og veittu einnig fjórum einstaklingum viðurkenningar fyrir að setja svip sinn á bæjarbraginn.
Í rökstuðningi dómnefndar og í tilnefningum frá bæjarbúum er Hafliða lýst sem vítamínsprautu sem heldur Garðabæ og íbúum Urriðaholts við efnið þegar kemur að þróun og uppbyggingu hverfisins.
„Hafliði er máttarstólpi í samfélaginu í Urriðaholti. Hann hefur með störfum sínum sem formaður íbúasamtaka Urriðaholts markað djúp spor í þróun og eflingu hverfisins. Sjálfboðastarf hans í Urriðaholti hefur ekki aðeins haldið Garðabæ við efnið, heldur einnig íbúum hverfisins.“
Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar, og Margrét Bjarnadóttir, forseti bæjarstjórnar, voru dómnefnd til halds og traust við athöfnina í dag.

Almar sagði nokkur vel valin orð um Hafliða áður en hann veitti honum verðlaunin.
„Hafliði er ávallt virkur í samtali við íbúa hverfisins, hlustar af athygli og tryggir að raddir þeirra heyrist. Fá hverfi geta státað af jafn vel sóttum íbúafundum og Urriðaholt og íbúasíða hverfisins heldur öllum við efnið. Þar hefur Hafliði reynt vera mjög góður milliliður, en hann hefur lagt sig fram um að viðhalda reglulegu sambandi við bæjarstjórn Garðabæjar til að tryggja að brýn verkefni fái þá athygli sem þau þurfa,“ sagði Almar meðal annars.
Tónlist var í höndum Ásgeirs Ásgeirssonar og Rakelar Sigurðardóttur og fluttu þau nokkur lög, meðal annars Það þarf fólk eins og þig, fyrir fólk eins og mig, eftir Rúnar Júlíusson.
Heiðruð fyrir framlag sitt til Garðabæjar
Fjórir aðrir einstaklingar voru einnig heiðraðir fyrir að setja svip sinn á bæjarbraginn.
Erla Jónsdóttir, vaktstjóri í Ásgarðslaug. Í rökstuðningi dómnefndar og tilnefningum segir meðal annars:
„Erla hefur ávallt tekið á móti öllum, stórum sem smáum, með bros á vör. Það er erfitt að finna manneskju sem leggur jafn mikla alúð í starf sitt og Erla – hún er alltaf jákvæð, til í spjall og vinnur vinnuna sína 100%.“
Þórunn Birna Björgvinsdóttir, kirkjuvörður í Vídalínskirkju. Í rökstuðningi dómnefndar um Þórunni og tilnefningum segir meðal annars:
„Sem kirkjuvörður gegnir hún mikilvægu hlutverki við að þjónusta bæjarbúa og skapa jákvæða og hlýja upplifun fyrir alla sem leita til hennar. Hún hefur verið ómetanlegur stuðningur á viðkvæmustu, gleðilegustu en líka erfiðum stundum í lífi fólks. Þórunn er brosmild, lausnamiðuð og passar að öll sem verða á hennar vegi labbi bæði södd og sæl frá henni.“
Börn Þórunnar tóku við verðlaununum fyrir hönd móður sinnar sem gat ekki verið viðstödd.
Gunnar Hrafn Richardson, verkefnastjóri tækni- og tómstundarmála hjá Garðabæ. Í rökstuðningi dómnefndar og tilnefningum segir meðal annars:
„Gunni er alltaf reiðubúinn að aðstoða aðra, hvort sem það er í verkahring hans eða ekki. Hann er svo sannarlega til þjónustu reiðubúinn. Hann er gegnheill maður sem hefur unnið traust og virðingu allra sem hafa kynnst honum.“
Freyja Huginsdóttir, meðlimur í ungmennaráði Garðabæjar, fékk sérstaka hvatningu sem ung manneskja sem hefur margt fram að færa. Í rökstuðningi dómnefndar og tilnefningum segir meðal annars:
„Freyja hefur sýnt það í félagsstörfum sínum að hún er svo sannarlega til fyrirmyndar. Hún er framtíðar leiðtogi, og í raun orðin að leiðtoga. Freyja er jákvæð, réttsýn og sýnir mikinn karakter. Hún hefur einstakt lag á að snúa neikvæðu andrúmslofti í betri farveg og draga fram jákvæðni.“
Hugmyndin á bak við Garðbæinginn okkar
Hugmyndina að því að velja Garðbæinginn okkar átti Andrea Róbertsdóttir, íbúi í Garðabæ. Með því að útnefna „Garðbæinginn okkar“ erum við að þakka fyrir það sem vel er gert, þakka einstaklingi fyrir sitt framlag, þeim sem eru til fyrirmyndar á einhvern hátt og minna okkur á að við getum öll haft áhrif. Til greina komu Garðbæingar en einnig fólk sem starfar eða dvelur í bænum til lengri eða skemmri tíma og hefur jákvæð áhrif á nærumhverfi sitt. Garðbæingurinn okkar 2023 var Páll Ásgrímur Jónsson, eða Páló eins og hann er alltaf kallaður.