7. jún. 2024

Hans Jóhannsson fiðlusmíðameistari er bæjarlistamaður Garðabæjar

Manfreð Vilhjálmsson arkitekt heiðraður fyrir ómetanlegt ævistarf.

  • Sveinbjörg Vilhjálmsdóttir, Torfi Geir Símonarson, Guðrún Arna Sturludóttir, Ólöf Breiðfjörð menningarfulltrúi, Hans Jóhannsson bæjarlistamaður, Almar Guðmundsson bæjarstjóri og Steinunn Vala Sigfúsdóttir.

Útnefning bæjarlistamanns Garðabæjar fór fram við hátíðlega athöfn í Sveinatungu föstudaginn 7. júní en fiðlusmíðameistarinn Hans Jóhannsson er nýr bæjarlistamaður. 

Hans fagnar nú 40 ára starfsafmæli og sýning á hljóðfærum hans sem fór fram í Ásmundarsal var tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna. 

Þó Hans hafi helgað sig nýsmíði á klassískum strengjahljóðfærum hefur hann einnig flutt fyrirlestra um hljóðfærasmíði og hljóðvistfræði víða um heim og tekið þátt í gerð sjónvarpsmyndar um efnið. Síðustu ár hafa hljóðrannsóknir á strokhljóðfærum verið eitt af verkefnum Hans en verkefnið er unnið með hópi vísindamanna og hljóðfærasmiða við Cambridge-háskóla í Bretlandi. 

Við athöfnina lék strengjakvartett skipaður Sigrúnu Eðvaldsdóttur fiðluleikara, Auði Hafsteinsdóttur fiðluleikara, Þórunni Ósk Marinósdóttur víóluleikara og Bryndísi Höllu Gylfadóttur selluleikara en þær léku allar á hljóðfæri eftir Hans Jóhannssonar, bæjarlistamanns Garðabæjar 2024.

Manfreð Vilhjálmsson arkitekt heiðraður 

Í athöfninni var Manfreð Vilhjálmsson arkitekt einnig heiðraður fyrir ómetanlegt starf í þágu byggingarlistar. Nýlega ánafnaði Manfreð Hönnunarsafni Íslands teikningar sínar til varðveislu en hann fékk heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands árið 2019 enda hafa verk hans markað djúp spor í sögu arkitektúrs á Íslandi.

Starfsferill Manfreðs spannar yfir 60 ár og endurspeglar metnaðarfulla listræna og faglega sýn hans í mjög fjölbreyttum verkefnum. Árbæjarkirkja, Þjóðarbókhlaðan, afgreiðslustöðvar Nestis við Elliðaár frá 1957 og Garðaskóli eru meðal verka Manfreðs sem lauk námi í arkitektúr í Gautaborg árið 1954.

_L1A8674

Manfreð Vilhjálmsson byggði sér heimili á Álftanesi þar sem hann býr enn en hann lagði áherslu á léttleika og opin rými fyrir fjölskyldu sína.


Við sama tilefni voru veittir styrkir úr Hvatningarsjóði ungra hönnuða og listamanna en styrki til fjölbreyttra verkefna hlutu Þórey María Kolbeins klarinettuleikari, Daníel Kári Jónsson hornleikari, Thema Rut Haraldsdóttir grafískur hönnuður og ljósmyndari og tónlistarmennirnir Hrannar Máni Ólafsson, Kolbrún Óskarsdóttir og Soffía Petra Poulsen.

_L1A8830

Við athöfnina lék Þórey María Kolbeins ásamt systur sinni Helgu Sigríði Kolbeins á píanó.


Myndir: Sigga Ella