18. jún. 2024 Menning og listir

Hátíð í bæ á 17 júní

Stemningin var góð og hátíðargestir stöldruðu lengi við á Garðatorgi. 

Hefðbundin fjölskyldudagskrá fór fram í Garðabæ á 17. júní og óhætt að segja að stemningin hafi verið góð og hátíðargestir hafi staldrað lengi við á Garðatorgi.

Skátafélagið Vífill og Blásarasveit Tónlistarskóla Garðabæjar leiddu gönguna en þegar göngugestir komu á Garðatorg tók við hátíðardagskrá á sviðinu, hoppukastalar á torginu og hið ómissandi kaffihlaðborð Kvenfélags Garðabæjar sem fer fram í Sveinatungu, Garðatorgi 7 ár hvert. 

Andlitsmálun og fánasmiðja ásamt kandiflosssölu skátanna höfðaði til yngri gesta á Garðatorgi 7.

Fjallkonan var Sigrún Ósk Ólafsdóttir úr Kvenfélagi Álftaness en hún bar kirtil í eigu Kvenfélags Álftaness. Hún las ljóð eftir Þórarin Eldjárn en hátíðarávarp hélt nýr forseti bæjarstjórnar, Margrét Bjarnadóttir.

Forseti bæjarstjórnar, Margrét Bjarnadóttir, fjallkonan Sigrún Ósk Ólafsdóttir og bæjarstjóri Almar GuðmundssonForseti bæjarstjórnar, Margrét Bjarnadóttir, fjallkonan Sigrún Ósk Ólafsdóttir og bæjarstjóri Almar Guðmundsson

Atriði frá Latabæ, Sólon ofurmaður og flottar söngkonur skemmtu yngri kynslóðinni en dagskrá á sviði lauk með Siggu Ózk og danshópi frá Dansskóla Birnu Björns.

1000 bollakökur í boði stjórnvalda smökkuðust vel, Fjallkonubókin rann út einsog heitar lummur en enn er hægt að sækja sér eintak á Bókasafni Garðabæjar. 

Lokahnykkurinn í hátíðarhöldum í tilefni 80 ára afmælis lýðveldisins voru kvöldtónleikar í sal Tónlistarskóla Garðabæjar þar sem söngvararnir Hallveig Rúnarsdóttir, Hildigunnur Einarsdóttir, Gunnar Guðbjörnsson og Bergþór Pálsson ásamt Evu Þyri Hilmarsdóttur píanóleikara sungu íslensk lög við mikla gleði áheyrenda. 

Einsöngvararnir sungu einni saman verðlaunalag Atla Ingólfssonar við ljóð Þórarins Eldjárn og í lok tónleika tóku tónleikagestir undir með einsöngvurunum og sungið var Ó blessuð vertu sumarsól eftir Inga T. Lárusson. 

Það voru glaðir hátíðargestir sem fóru út í milt 17. júníkvöldið.