21. ágú. 2025

Hjáleiðir og lokanir við Breiðumýri

Framkvæmdir við lagningu nýrra fráveitu-, vatnsveitu- og hitaveitulagna standa yfir við Breiðumýri í Álftanesi. Nú er skólastarf að hefjast og því mikilvægt að börn og foreldrar þekki vel hjáleiðir og lokanir á svæðinu.

Framkvæmdir við lagningu nýrra fráveitu-, vatnsveitu- og hitaveitulagna standa yfir við Breiðumýri í Álftanesi. Á meðfylgjandi korti má sjá lokuð svæði og hjáleiðir. Áætluð verklok eru í október. Nú er skólastarf að hefjast og því mikilvægt að börn og foreldrar þekki vel hjáleiðir og lokanir á svæðinu.

Garðabær vill koma á framfæri upplýsingum um framkvæmdir sem hafa staðið yfir í rúmt ár við Breiðumýri. Framkvæmdirnar eru á vegum Veitna og snúa að vinnu við lagningu nýrra fráveitu-, vatnsveitu- og hitaveitulagna. Að lagnaframkvæmdum loknum fer af stað lokafrágangur á svæðinu með breikkun núverandi göngustíga og endurbótum á gönguþverunum. Lýsing verður bætt og fleiri umferðarskiltum verður komið fyrir til að tryggja öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda.

Framkvæmdir síðustu vikna hafa haft það í för með sér að verktaki hefur þurft að loka gönguleiðum á köflum.

Í ljósi skólasetningar hjá Álftanesskóla á morgun, föstudag, viljum við benda sérstaklega á hvar gönguleiðir eru á svæðinu. Á meðfylgjandi korti eru framkvæmdasvæðin sýnd með rauðu, grænt sýnir hjáleiðir og blátt sýnir hvar göngubrúm hefur verið komið fyrir, við Álftaneslaug og Krakkakot.

Áætlað er að lagnaframkvæmdum ljúki í byrjun september. Áætluð verklok eru um miðjan október þegar yfirborðsfrágangur klárast.