14. jan. 2026

„Höldum áfram að stefna hátt í rétta átt“

Ávarp Hrannars Braga Eyjólfssonar, formanns íþrótta- og tómstundaráðs Garðabæjar. Flutt á Íþróttahátíð Garðabæjar 2026

Íþróttahátíð Garðabæjar var haldin í Ásgarði þann 11. janúar . Hrannar Bragi Eyjólfsson, formaður ÍTG, ávarpaði viðstadda við tilefnið, ávarpið má lesa hér fyrir neðan.

Kæru Garðbæingar,

Velkomin til íþróttahátíðar Garðabæjar árið 2026. Hér komum við saman til að fagna saman og gleðjast yfir þeim árangri sem íþróttafólkið okkar hefur náð. Við munum veita viðurkenningar fyrir landsliðsþátttöku, fyrir frammistöðu á erlendum vettvangi og fyrir framlag til félagsmála í Garðabæ. Við munum einnig útnefna lið ársins og þjálfara ársins og svo í lokin útnefnum við íþróttakarl og íþróttakonu ársins.

Garðabær fagnar í ár 50 ára kaupstaðarafmæli og af þeim sökum höfum við boðið sérstaklega öllum þeim sem hafa hlotið þann heiður að vera útnefndir íþróttamenn Garðabæjar til þessarar íþróttahátíðar.

Íþróttamaður Garðabæjar á sér langa sögu í bænum. Verðlaunin voru fyrst veitt árið 1982, þegar Bræðrafélag Garðakirkju hóf að útnefna íþróttamann Garðabæjar. Síðar tók íþrótta- og tómstundaráð við og hefur séð um útnefninguna síðan. Þetta er í 44. sinn sem við útnefnum íþróttafólk Garðabæjar, en við höfum veitt viðurkenninguna 58 sinnum, þ.e. 29 sinnum í karlaflokki og 29 sinnum í kvennaflokki. Allt til ársins 2009 var aðeins einn einstaklingur sem fékk þessa nafnbót, en frá árinu 2010 hafa tveir aðilar, íþróttakarl og íþróttakona Garðabæjar, hlotið þennan titil. 44 einstaklingar hafa orðið íþróttamenn Garðabæjar, 20 konur og 24 karlar. Sumir hafa hlotið nafnbótina oftar en einu sinni og fjórir einstaklingar, tvær konur og tveir karlar, hafa þrisvar sinnum orðið íþróttamenn Garðabæjar. Íþróttamenn Garðabæjar hafa með dugnaði, metnaði og eftirminnilegum afrekum rutt brautina fyrir komandi kynslóðir, verið góðar fyrirmyndir bæði innan og utan vallarins, og fyrir hönd Garðabæjar þakka ég ykkur kærlega fyrir það.

Við munum kalla þá alla sem hér eru mættir upp á svið á eftir, færa þeim rós og óska eftir mynd af þessum fríða hópi.

Áður en við gerum það ætla ég að flytja annál íþrótta- og tómstundamála í Garðabæ árið 2025, ég kemst auðvitað aldrei yfir allt en ég ætla að stikla á því helsta sem gerðist á liðnu ári.

Íþróttabærinn Garðabær – íbúar ánægðir með aðstöðu til íþróttaiðkunar.

Í janúar árið 2025 kom árleg þjónustukönnun Gallup út og kom þar í ljós að íbúar Garðabæjar eru almennt ánægðir með þjónustuna í bænum. Garðabær var í könnuninni efstur í ánægju íbúa með aðstöðu til íþróttaiðkunar í bænum en 86% íbúa sögðust ánægðir með aðstöðu til íþróttaiðkunar í Garðabæ.

Fjórar íþróttamiðstöðvar eru í Garðabæ, í Ásgarði, Miðgarði, Mýrinni og á Álftanesi, tvær almenningssundlaugar og tvær skólasundlaugar, þrír knattspyrnuvellir í fullri stærð, fleiri vellir í minni stærð, fjórir golfvellir, púttvöllur, tvær reiðhallir og fjöldi hreystivalla sem eru við yndislegar göngu- og hjólaleiðir sem þræða fallega bæinn okkar.

Ný reiðstígur í Heimörk tekinn í notkun

Snemma árs hófust framkvæmdir við nýjan reiðstíg milli hesthúsahverfa í Garðabæ og Hafnarfirði, sem nú tengir hesthúsasvæði beggja sveitarfélaga. Verkefnið var liður í stækkandi stígakerfi bæjarins, en stígurinn var tekinn í notkun í sumar.

Félagsmiðstöðvum fjölgar

Í janúar opnuðu tvær nýjar félagsmiðstöðvar í bænum, Dropinn í Hofsstaðaskóla og Fjaran í Flataskóla.

Ungmennahús Garðabæjar mun síðan formlega opna næsta miðvikudag, þann 14. janúar, en það er kærkomin viðbót við félagsmiðstöðvaumhverfi okkar. Höfuðstöðvar Ungmennahúss verða á Garðatorgi en starfsemi klúbba um hin ýmsu áhugamál fer fram þar sem aðstaða er til í Garðabæ.

Félagsmiðstöðvar voru fjórar í bænum fyrir þremur árum, en verða með tilkomu Ungmennahússins orðnar átta.

Stóraukin þjónusta Strætó til að styðja við íþrótta- og tómstundastarf ungmenna

Til að styðja við starfsemi félagsmiðstöðva og íþrótta- og tómstundastarf ungmenna í bænum tók bæjarstjórn ákvörðun um að hefja kvöldakstur á leiðum 22, sem ekur frá Ásgarði í Urriðaholt um Miðgarð, og leið 23, sem ekur frá Ásgarði út á Álftanes. Markmiðið var að auðvelda ungmennum að sækja heillavænlegt starf víðsvegar í bænum og vonandi næst það mæta markmið.

Sjúkraþjálfun Garðabæjar hefur rekstur í Miðgarði

Í febrúar 2025 auglýsti Garðabær til leigu um 600 fermetra rými á 2. hæð íþróttamiðstöðvarinnar Miðgarðs fyrir heilsueflandi starfsemi.

Valnefnd tók við umsóknum áhugasamra aðila og fór svo að ákveðið var að ganga til samninga við Sjúkraþjálfun Garðabæjar sem hefur rekstur sjúkraþjálfunarstöðvar á vormánuðum 2026.

KSÍ og Miðgarður

Knattspyrnusamband Íslands og Garðabær undirrituðu nýjan samning um notkun KSÍ á Miðgarði til landsliðsæfinga og keppni, en Miðgarður hefur skipað sér sess sem ein fremsta íþróttaaðstaða landsins.

Norðurlandamót í Miðgarði

Tvö Norðurlandamót voru haldin í Miðgarði á árinu.

Í september fór þar fram norðurlandamót unglinga í kraftlyftingum og í nóvember var síðan haldið norðurlandamót fullorðinna í ólympískum lyftingum. Nokkur hundruð manns tóku þátt á mótunum tveimur og fjöldi áhorfenda lagði leið sína í Miðgarð. Stjörnumenn unnu meðal annars Norðurlandameistaratitil í Miðgarði og óskum við þeim hjartanlega til hamingju. Það er fagnaðarefni að hægt sé að halda stórmót í Miðgarði og þau gangi eins vel og raun bar vitni.

Garðabær fjárfesti í tveimur færanlegum stúkum af þessu tilefni, sem hvor um sig tekur 50 manns í sæti, en þessar stúkur má nota víðs vegar um bæinn við hin ýmsu tilefni í framtíðinni og góð viðbót fyrir viðburðahald í bænum.

Þarfagreining og hugmyndavinna um áframhaldandi uppbyggingu í Miðgarði

Í september hóf íþrótta- og tómstundaráð vinnu við þarfagreiningu og hugmyndavinnu um áframhaldandi uppbyggingu í Vetrarmýri. Í deiliskipulagi er gert ráð fyrir 41.000 fermetrum í íþróttamannvirki, en nú þegar hafa 18.000 fermetrar risið í núverandi íþróttahúsi sem er þar, en 23.000 fermetrar eiga enn eftir að rísa. Meðal annars er gert ráð fyrir íþróttahúsi við hlið núverandi húss og knattspyrnuleikvangi.

Íþrótta- og tómstundaráð mun skila af sér greinagerð um málið á vormánuðum 2026, en talsverð uppbygging er hafin í Vetrarmýri og Hnoðraholti og því er vaxandi þörf skóla og félaga fyrir íþróttaðstöðu til að mæta nýjum íbúum á svæðinu.

Framkvæmdir á árinu

Ýmsar framkvæmdir voru á árinu 2025. Í Ásgarði voru tæki endurnýjuð í líkamsrækt almennings, stór LED skjár var settur upp í stóra salnum fyrir leikklukku í körfubolta, fimleikaáhöld voru endurnýjuð ásamt húsgögnum í anddyri.

Miklar framkvæmdir á Álftanesi

Á Álftanesi var töluvert um framkvæmdir. Skipt var um gervigras á knattspyrnuvellinum, lokið var við að endurskipuleggja og setja upp afgreiðslu sundlaugarinnar sem bætir mjög aðstöðu og yfirsýn starfsfólks. Þá var félagsaðstaða Ungmennafélagsins Álftaness færð til í húsnæðinu og um leið var unnið að lagfæringum á gamla innganginum. Félagsmiðstöðin Elítan var færð til og fékk gömlu aðstöðu ungmennafélagsins.

Á undanförnum árum hefur töluvert verið lagt í endurnýjun á íþróttamannvirkjum á Álftanesi og með nýrri stúku, sem kom árið 2024, og nú nýju gervigrasi er íþróttaaðstaða þar með besta móti.

Endurskoðun á deiliskipulagi íþróttasvæðis Álftaness hafin

Vinna er hafin við að endurskoða deiliskipulag íþrótta- og skólasvæðis á Álftanesi, en mikil uppbygging hefur verið á svæðinu og því nauðsynlegt að skoða hvernig íþróttamannvirkjum og áframhaldandi uppbyggingu verður best fyrir komið. Stefnt er að vinna málið í samráði við íbúa, félög og hagaðila á svæðinu.

Ungmennafélag Álftaness 80 ára árið 2026

Þess má geta hér að Ungmennafélagið Álftaness fagnaði á dögunum 80 ára afmæli, en félagið var stofnað á þrettándanum, 6. janúar árið 1946. Við óskum Ungmennafélagi Álftaness hjartanlega til hamingju með þennan merka áfanga.

Brátt vígjum við íþróttahús og sundlaug í Urriðaholti.

Framkvæmdir á íþróttahúsi og sundlaug gengu vel í Urriðaholti. Nýja íþróttahúsið, sem verður í fullri stærð, og sundlaugin verða vígð núna á vormánuðum 2026 og verða mikil lyftistöng fyrir íþróttaaðstöðu í Urriðaholti.

Félögin fagna góðu gengi

Félögin í Garðabæ náðu eftirtektarverðum árangri á árinu og voru áberandi í íslensku íþróttalífi.

Stjarnan skín skært

Ungmennafélagið Stjarnan hefur fyrir löngu skipað sér sess sem eitt fremsta íþróttafélag landsins. Það má með sanni segja að Stjarnan hafi skinið skært árið 2025.

Stórkostlegir Stjörnumenn – Íslandsmeistarar í körfubolta

Meistaraflokkur karla í körfubolta hjá Stjörnunni urðu Íslandsmeistarar í maímánuði eftir sigur í oddaleik gegn Tindastóli á Sauðárkróki. Um var að ræða fyrsta Íslandsmeistaratitil körfuknattleiksdeildar í sögu deildarinnar, en Stjarnan fagnaði 65 ára afmæli 30. október 2025. Þetta var frábær afmælisgjöf til Stjörnumanna og stórkostlegur árangur körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar. Þeir bættu síðan um betur og unnu einnig Meistarakeppni KK í september.

Það má bæta því við hér að minnstu munaði að Garðabær ætti tvö lið í úrslitum Íslandsmótsins í körfubolta, því Ungmennafélag Álftaness tapaði með naumindum í undanúrslitum. Garðabær er sannarlega íþróttabær og stendur í fremstu röð víða.

Framúrskarandi fimleikar

Fimleikadeild Stjörnunnar hafði enn einu framúrskarandi árinu að fagna – bæði í hóp- og áhaldafimleikum.

Meistaraflokkur kvenna í hópfimleikum vann þrefaldan bikarmeistaratitil í mars 2025, Stjarnan varð þrefaldur Íslandsmeistari í karla-, kvennaflokki og í blönduðum flokki í apríl. Þess má geta að Stjarnan er fyrsta félagið til að senda lið til keppni í öllum flokkum, þ.e. kvenna-, karla- og blönduðum flokki. Þetta var sjöundi Íslandsmeistaratitill Stjörnunnar í kvennaflokki í röð.

Meistaraflokkur kvenna náði svo þeim framúrskarandi árangri að sigra Norðurlandamót og verða norðurlandameistarar í dansi.

Evrópusæti hjá Stjörnunni í knattspyrnu karla og silfur í handbolta

Meistaraflokkur karla í handbolta hjá Stjörnunni komst alla leið í bikarúrslit á árinu og hreppti silfurverðlaun. Síðar á árinu léku þeir í undankeppni í Evrópukeppni en höfðu ekki erindi sem erfiði gegn sterku rúmensku liði.

Þá náði meistaraflokkur karla í fótbolta góðum árangri og hreppti 3. sæti á Íslandsmótinu í sumar og tryggði sér þar með þátttöku í Evrópukeppni.

Stjarnan alls staðar í efstu deild

Stjarnan hefur einnig vakið verðskuldaða athygli fyrir sterkt og faglegt starf í öðrum deildum. Félagið er eitt það stærsta á landinu og státar af þeim árangri að vera með lið í efstu deild í bæði karla- og kvennaflokki í knattspyrnu, körfubolta og handbolta. Fimleikadeild Stjörnunnar hefur síðan fyrir löngu skipað sér sess sem stórveldi í íþróttinni hér á landi og víðar. Það er magnaður árangur sem Stjörnumenn geta verið stoltir af.

Magnaður árangur Garðbæinga

Í einstaklingsgreinum áttu Garðbæingar einnig afreksfólk sem náði eftirtektarverðum árangri. Garðbæingar náðu frábærum árangri á erlendum vettvangi, fjölmargir urðu Íslands- og bikarmeistarar og sumir settu Íslandsmet í sínum greinum.

Garðbæingar kylfingar ársins

Í janúar voru Hulda Clara Gestsdóttir og Gunnlaugur Árni Sveinsson, kjörnir kylfingar ársins 2024 af Golfsambandi Íslands. Bæði voru að fá viðurkenninguna í fyrsta skipti og bæði leika þau fyrir GKG. Gunnlaugur Árni var síðan kjörinn kylfingur ársins árið 2025 á dögunum.

Þess má geta að Garðbæingurinn Birgir Leifur Hafþórsson hefur oftast fengið þessa viðurkenningu í karlaflokki, eða 11 sinnum, og Garðbæingurinn Ólafía Þórunn Kristinsdóttir hefur oftast fengið viðurkenninguna í kvennaflokki, eða sex sinnum. Garðabær er sannarlega golfbær.

Gunnlaugur Árni Sveinsson skipaði sér í hóp fremstu áhugamanna heims árið 2025 og náði 8. sæti á heimslista áhugamanna, sem er besti árangur Íslendings frá upphafi.

Hulda Clara Gestsdóttir átti afar sterkt ár í golfi, og sigraði meðal annars Summit League meistaramótið í NCAA og varð í öðru sæti á Boilermaker Classic.

Aðrir kylfingar úr GKG unnu átta Íslandsmeistaratitla á árinu. Glæsilegur árangur.

Öflugir langhlauparar

Garðbæskir langhlauparar náðu framúrskarandi árangri á árinu. Bjarki Fannar Benediktsson náði sögulegum árangri í Frankfurt í þegar hann sló þrettán ára gamalt Íslandsmet Arnars Péturssonar í maraþoni í flokki 20 ára og yngri.

Hulda Fanný Pálsdóttir átti afar sterkt ár í langhlaupum þegar hún setti Íslandsmet 22 ára og yngri í heilu maraþoni í Frankfurt. Fyrir þann árangur hlaut hún verðlaun efnilegra ungmenna frá langhlaupanefnd FRÍ.

Feiknagóður árangur fimleikakvenna

Sigurrós Ásta Þórisdóttir, fimleikakona úr Stjörnunni, vann gull á Norðurlandamóti sem fór fram í Álaborg í Danmörku í júnímánuði. Hún vann það mikla afrek að verða Norðurlandameistari unglinga á gólfi og við Garðbæingar getum sannarlega verið stoltir af árangri hennar.

Hún keppti einnig, ásamt Kolbrúnu Evu Hólmarsdóttur, fyrir Íslands hönd á Top Gym sem fór fram í Belgíu í desember, og lenti lið Íslands í þriðja sæti á mótinu.

Nanna Guðmundsdóttir, Þóranna Sveinsdóttir og Margrét Lea Kristinsdóttir áttu frábært ár í áhaldafimleikum þegar þær voru hluti af silfurliði Íslands á Smáþjóðaleikunum. Að auki vann Nanna gull á gólfi, Þóranna gull í tvíslá og Margrét Lea brons á slá í einstaklingsgreinum.

Þær keppa allar fyrir hönd Stjörnunnar og ljóst að áhaldafimleikar hjá Stjörnunni eru í fremsta flokki á landsvísu og víðar.

Gull og brons í handbolta á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar

Matthías Dagur Þorsteinsson og Vigdís Arna Hjartardóttir, handboltamenn úr Stjörnunni, áttu bæði glæsilegt ár í handbolta þegar þau kepptu með U17 landsliðum Íslands á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar. Matthías var hluti af liði drengja sem vann gullverðlaun — í fyrsta sinn sem íslenskt lið vinnur gull á Ólympíuhátíðinni — á meðan Vigdís Arna var í liði stúlkna sem vann bronsverðlaun á sama móti.

Kraftlyftingafólk með enn eitt kraftaárið

Enn á ný átti kraftlyftingafólk úr Stjörnunni gott ár.

Aron Friðrik Georgsson, kraftlyftingamaður í Stjörnunni, varð Íslandsmeistari í klassískum kraftlyftingum í +120 kg flokki og vann brons í samanlögðu og öllum þremur greinum á Vestur-Evrópumótinu í Finnlandi.

Lucie Martinsdóttir Stefanikova, kraftlyftingakona úr Stjörnunni, átti einstakt ár í klassískum kraftlyftingum þegar hún vann brons í samanlögðu á EM í Malaga, gull í hnébeygju með Evrópumeti og varð stigahæsti keppandi Íslands frá upphafi í greininni. Hún bætti við silfri í hnébeygju á HM og var í verðlaunabaráttu fram á síðustu lyftu.

Frjálsíþróttafólk fór mikinn á árinu

Frjálsíþróttafólk úr Garðabæ fór mikinn á árinu.

Irma Gunnarsdóttir átti stórkostlegt ár þegar hún vann brons á NM innanhúss í langstökki og setti glæsilegt Íslandsmet í þrístökki á Evrópubikarmóti. Hún varð Íslandsmeistari í langstökki og þrístökki bæði innan- og utanhúss og er nú í fremstu röð íslensks frjálsíþróttafólks.

Ísold Sævarsdóttir átti afar sterkt ár í frjálsum íþróttum 2025, en hún náði besta árangri íslenskra kvenna í sjöþraut á árinu með 5.470 stig og setti jafnframt Íslandsmet í flokki 18–19 ára í 400 m grindahlaupi.

Ingeborg Eide Garðarsdóttir nýtt Íslandsmet í kúluvarpi í flokki F37 á Heimsmeistaramóti IPC og náði þar 6. sæti. Hún vann til verðlauna á Grand Prix mótum erlendis og var kjörin Íþróttakona ársins hjá Íþróttasambandi fatlaðra 2025.

Aníta Ósk Hrafnsdóttir, úr Íþróttafélaginu Firði, átti einstakt afreksár árið 2025 í frjálsum íþróttum og kraftlyftingum. Hún varð margfaldur Íslands- og Norðurlandameistari í hlaupum fatlaðra, setti Íslandsmet í 300 m og 5000 m hlaupi og stóð jafnframt á verðlaunapalli í köstum. Samhliða þessu varð hún Íslandsmeistari í kraftlyftingum í -63 kg flokki, setti fjölda Íslandsmeta, sigraði á alþjóðlegu Special Olympics móti í Rúmeníu og var meðal stigahæstu keppenda mótsins – auk þess sem hún lagði sitt af mörkum til bikarmeistaratitils Fjarðar í sundi.

Silfur og brons í sundi

Emelía Ýr Gunnarsdóttir átti gott keppnisár í sundi fatlaðra þegar hún vann til verðlauna á Norðurlandamóti sem haldið var í Laugardalslaug í nóvember 2025. Hún hlaut silfur í 50 metra flugsundi og brons í 100 metra flugsundi.

Knapar fögnuðu góðu gengi

Auður Stefánsdóttir átti glæsilegt keppnisár 2025 þegar hún var valin Keppnisknapi Spretts og jafnframt stigahæsti knapinn í flokki fullorðinna kvenna. Hún sigraði fjórgang á Íþróttamóti Spretts, reið til úrslita á Reykjavíkurmeistaramóti og vann alla flokka á Suðurlandsmóti Geysis í 1. Flokki.

Herdís Björg Jóhannsdóttir, hestakona úr Spretti, hlaut verðlaun á Heimsmeistaramóti íslenska hestsins í Sviss í ágúst 2025 í ungmennaflokki.

Kristín Rut Jónsdóttir, einnig úr Spretti, náði þeim merka árangri að verða fjórfaldur Íslandsmeistari á hesti sínum Straumi frá Hofsstöðum í Garðabæ, og systir hennar, Elva Rún Jónsdóttir, Íslandsmeistari í tölti unglinga á hesti sínum Goða frá Garðabæ. Frábær árangur Garðbæinga í hestaíþróttinni.

Dansarar áttu stórkostlegt ár

Nikita Bazev og Hanna Rún Bazev, danspar úr DÍH, áttu sögulegt ár í latín dönsum 2025 þegar þau urðu Íslandsmeistarar atvinnumanna, náðu verðlaunasætum á stærstu alþjóðlegu mótum ársins og enduðu í 1. sæti á heimslista í latíndönsum. Þau unnu meðal annars brons á Evrópumeistaramóti og náðu 5. sæti á Heimsmeistaramóti.

Þá náði Aníta Dís Atladóttir frábærum árangri á árinu þegar hún varð Íslandsmeistari í latíndönsum og standard dönsum ungmenna árið 2025. Framtíðin er því greinilega björt í dansheimi Garðbæinga.

Taekwondo meistari

Jón Þór Sanne átti framúrskarandi ár í taekwondo árið 2025. Hann varð Íslandsmeistari í bardaga í flokki 15–17 ára og sigraði öll bikarmót ársins. Á alþjóðavettvangi vann hann brons á Norðurlandamótinu 2025.

Evrópumeistari í skotíþróttum

Jón Þór Sigurðsson átti eitt besta ár sem íslenskur skotíþróttamaður hefur átt, varð Evrópumeistari og Íslandsmetshafi í 300 m liggjandi riffli og vann brons á HM. Hann bætti við gullverðlaunum á Smáþjóðaleikum og Evrópubikarmóti og hefur náð einstökum árangri á alþjóðavettvangi.

Hér má bæta við að skotíþróttamaðurinn Þór Þórhallsson átti gott keppnisár árið 2025 og tryggði sér meðal annars þátttökurétt á HM fatlaðra í skotíþróttum sem fer fram árið 2026.

Magnaður árangur í bogfimi

Þórdís Unnur Bjarkadóttir, afreksmaður í bogfimi, átti eitt sterkasta ár sem Íslendingur hefur sýnt í bogfimi, var valin Trissubogakona ársins annað árið í röð og setti heimsmet og Evrópumet U18. Hún vann 13 Íslandsmeistaratitla, 18 Íslandsmet og náði fjölda verðlauna á alþjóðavettvangi – afrek í algjörum sérflokki.

Það er ógerlegt að telja upp öll þau afrek sem Garðbæingar hafa unnið á íþróttavellinum í ár, en ég tel hér nokkur dæmi sem geta gefið okkur innsýn inn í hið gróskumikla og fjölbreytta íþróttastarf sem fram fer hér í bænum okkar.

Stuðningur Garðabæjar

Garðabær styður margvíslega við afreksíþróttamenn í Garðabæ. Aðstaða til íþróttaiðkunar er framúrskarandi í bænum og félögin eru styrkt með fjárframlögum til að styðja við öflugt íþróttastarf í bænum. Þá eru hvatapeningar greiddir til barna og ungmenna á aldrinum 5-18 ára, en bæjarstjórn tók ákvörðun á dögunum að hækka hvatapeninga um tæplega 12% í 67.000 kr. Því til viðbótar munu börn og ungmenni sem búa á tekjulægri heimilum geta sótt um 15.000 kr. viðbótarhvatapeninga, sem þýðir að heildarfjárhæð hvatapeninga verður 82.000 kr. Það er hæsti hvatapeningur sem völ er á.

Hvatapeningar voru greiddar vegna þátttöku barna og ungmenna í 31 íþrótt, sem sýnir hversu fjölbreytt og vítt áhugasvið Garðbæinga er. Það er styrkur kerfisins að hvatapeningurinn fylgir hverju barni sem síðan getur ráðstafað honum í þá íþrótt sem það sjálft kýs. Barnið og val þess er því hornsteinn kerfisins.

Með þessu vill Garðabær stuðla að því að sem flest börn og ungmenni geti tekið þátt í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi. Þess má geta hér að Garðabær fékk viðurkenningu frá UNICEF frá barnvænt samfélag 18. nóvember á síðasta ári, sem meðal annars var gefin vegna framúrskarandi íþrótta- og tómstundastarfs í bænum.

Þá greiðir Garðabæ afreksstyrki til afreksíþróttafólks til að styðja þau við að ná sem lengst í sinni íþrótt. Á árinu samþykkti íþrótta- og tómstundaráð að greiða afreksstyrki til 13 einstaklinga í tveimur úthlutunum, alls 3,2 milljónir króna.

Garðabær greiddi ferðastyrki vegna 73 landsliðsverkefna á árinu 2025 fyrir um 1,5 milljón króna. Bæjarstjórn samþykkti fyrir skemmstu tillögu íþrótta- og tómstundaráðs að stórauka fjárhæð ferðastyrks, úr 20.000 kr. í 50.000 kr., sem er 150% hækkun, og um leið gefa íþrótta- og tómstundaráð heimild til að veita fleiri en tvo styrki til einstaklinga ef sérstakar ástæður gefa tilefni til.

Íþróttamaður Garðabæjar

Í dag útnefnum við íþróttafólk Garðabæjar.

Garðabær hefur frá upphafi verið mikill íþróttabær. Öll hugmyndafræði með stofnun félaganna í bænum hefur byggt á þeirri hugsjón að íþrótta- og æskulýðsstarf eigi fyrst og fremst að þroska góðar og heilbrigðar manneskjur sem vinna sér og samfélaginu sínu gagn með góðu og göfugu hátterni.

Í dag erum við samankomin til að fagna afreksfólkinu okkar, þeim sem skarað hafa fram úr, sem er vel og nauðsynlegt, en við megum aldrei missa sjónar á markmiðum, tilgangi og hugsjónum íþróttastarfsins.

Íþróttir snúast ekki bara um afrek, heldur um að bæta sjálfan sig og leggja sig fram fyrir hópinn. Þannig eru þær tækifæri til að kenna sjálfsaga, samstöðu og virðingu fyrir samherjum og mótherjum, bæði innan og utan vallar. Íþróttamaðurinn þarf að læra að sigra, en ekki síst hvernig taka skuli tapi með reisn og virðingu fyrir öðrum – og líta á það sem tækifæri til að vaxa og læra.

Meginmarkmið alls íþróttastarfs er að skapa heilbrigða einstaklinga sem vinna sér og samfélaginu sínu gagn með því að vinna að hinu góða. Við megum ekki gleyma að einhvern tímann hættum við í íþróttum og þá ríður á miklu að eftir standi góður og heilbrigður einstaklingur.

Íþróttamaður Garðabæjar þarf að hafa þetta hugfast og hafa hugsjón íþróttanna í stafni – vera fyrirmynd bæði innan og utan vallar fyrir æsku Garðabæjar.

Fórnfúsir einstaklingar standa að baki íþróttabænum

Við megum samt aldrei gleyma að framúrskarandi árangur gerist ekki af sjálfu sér, því að baki hverju ykkar standa fjölmargir fórnfúsir einstaklingar sem eiga einnig heiður skilinn, sem vinna eftir hugsjón og starfa aðeins í þágu íþróttanna til þess að bregða birtu og veita hamingju inn í líf íþróttafólks í Garðabæ.

Ég vil nota tækifærið og þakka þessum fórnfúsu einstaklingum, sjálfboðaliðum og öllum þeim sem hafa gert það mögulegt að halda úti því blómlega íþrótta- og tómstundastarfi sem á sér stað hér í Garðabæ. Þið eruð lífæð íþróttanna í bænum.

Kæru Garðbæingar! Höldum áfram að stefna hátt í rétta átt.