22. sep. 2023

Hreyfivika í Garðabæ - vertu með!

Hreyfivika í Garðabæ fer fram 23.-30. september í tilefni af Íþróttaviku Evrópu. #beactive -  Vertu með!

  • Hreyfivika_auglysingamynd23
    Hreyfivika í Garðabæ. Vertu með!

Íþróttavika Evrópu (European Week of Sport) er haldin 23. – 30. september ár hvert í yfir 30 Evrópulöndum.

Garðabær hvetur íbúa til að stunda hreyfingu allt árið. Nú í Evrópskri hreyfiviku minnir bærinn á fjölbreytta möguleika sem fólk hefur til skemmtilegrar hreyfingar bæði utanhúss og innan. Mikið af þessari aðstöðu innanhúss í Garðabæ er opin en panta þarf tíma í sölunum með tölvupósti á kristjanh@gardabaer.is.

Einnig er vert að skoða tilboð ýmissa félaga og einkaaðila hér í bænum til líkamsræktar og skemmtunar.

Auglýsing um hreyfiviku Garðabæjar.

ALMENNINGSSUNDLAUGAR

Í Garðabæ eru tvær almenningssundlaugar, í Ásgarði og við Breiðumýri á Álftanesi. Báðar eru afar vinsælar og Garðbæingar nýta þær vel.

DANSSALIR

Í Ásgarði og Sjálandsskóla eru danssalir með speglavegg. Dansskólar hafa þar starfsemi auk félaga og einkaaðila.

MIÐGARÐUR

Í Miðgarði er knattspyrnuvöllur í fullri stærð og klifurveggur innanhúss auk teygju- og upphitunaraðstöðu. Þar er fyrsta flokks styrktar- og þrekæfingaaðstaða ásamt tilheyrandi stoðrýmum. Almenningi er frjálst að nýta göngubrautina á svölum íþróttasalarins á opnunartíma
hússins þegar ekki eru viðburðir með áhorfendum.

FJÖLNOTA ÍÞRÓTTASALIR

Íþróttasalirnir í Ásgarði, Mýrinni, Sjálandsskóla og Breiðumýri eru allir fjölnota salir með aðstöðu
fyrir körfubolta, handbolta blak og badminton.
Hópar geta pantað tíma sem íþróttafélögin nýta ekki.

Opin svæði

HEIÐMÖRK

Í Heiðmörk eru möguleikar til fjölbreyttrar útivistar. Fyrir utan frábærar og skemmtilegar gönguleiðir, fuglalíf og fallega náttúru má meðal annars nefna svæði til boltaleikja, tjaldsvæði og grillsvæði.

SJÓSUND Á ÁLFTANESI

Gott aðgengi er að sjónum á Álftanesi fyrir sjósundsáhugafólk.

GOLFVELLIR

Golfklúbburinn Oddur, Golfklúbburinn GKG og Golfklúbbur Álftaness bjóða allir upp á framúrskarandi aðstöðu til golfiðkunar.

BÆJARGARÐUR

Í bæjargarðinum okkar við Hraunkotslæk er allt til alls fyrir börn að stunda útivist, meðal
annars sívinsæll ærslabelgur, fótboltavöllur og svo margt fleira. Sjáumst þar!

HREYSTIVELLIR

Eru við Arnarneslækinn, Sunnuflöt, í Bæjargarðinum, í Vinagarði og á Álftanesi við sundlaugina.
Þar er upplagt að koma við í göngu dagsins og stæla vöðvana. Sérstaklega er gætt að
aðgengi fyrir hjólastóla á þessum hreystivöllum.

BRETTAPALLAR

Við Sjáland og íþróttavöllinn á Álftanesi eru brettapallar með opnu aðgengi.

SPARKVELLIR

Í íbúðahverfum bæjarins eru sparkvellir og opin leiksvæði. Þar er tilvalið að fara og taka leik, sparka á milli eða skjóta í körfur sem eru þar líka. Á kortavef bæjarins er hægt að sjá yfirlit yfir alla leikvelli.

VÖTN OG VEIÐI

Hægt er að ganga í kring um vötnin okkar til dæmis Urriðavatn, en aðeins má veiða í Vífilsstaðavatni og þar þarf veiðikortið (veiði 1. apríl-15. sept ár hvert). Töluvert af andfuglum verpir
við vötnin okkar og mófuglar umhverfis þau.

FRISBÍGOLF

Frisbígolf er ört vaxandi íþróttagrein á heimsvísu sem fer fram á svipaðan hátt og venjulegt golf, en í stað golfkylfa og golfbolta nota leikmenn frisbídiska. Völlurinn á Vífilsstöðum er með 10 körfum. Völlurinn er staðsettur í garðinum sunnan við Vífilsstaði.

VINAGARÐUR Í URRIÐAHOLTI

Vinagarður í Urriðaholti er staður þar sem krakkar á öllum aldri geta notið útivistar. Í Vinagarði er allt til alls, meðal annars fótboltavöllur, körfuboltavöllur, líkamsræktartæki og ærslabelgur.

BMX-HJÓLABRAUT

Brautina er nú að finna í efri Lundum, norðan við leikskólann Lundaból, þar er einnig frábær
440m hjólabraut sem er nýuppgerð.

BARNALEIKVELLIR

Í Garðabæ er alltaf stutt í næsta leikvöll en yfir 40 leiksvæði eru í bænum. Mikil áhersla hefur
er lögð á barnvænt umhverfi inni í hverfunum. Undanfarin ár hafa fjölmargir leikvellir verið
endurbættir í Garðabæ og aðrir nýir bæst við.

GÖNGULEIÐIR Í WAPP-APPINU

Söguleiðir og hreyfileiðir eru í boði í Wapp-appinu. Íbúar Garðabæjar geta nálgast upplýsingar um áhugaverðar gönguleiðir, sögulegan fróðleik um menningarminjar og útivistarmöguleika í landi Garðabæjar.

GÖNGULEIÐIR OG LEIKSVÆÐI Á KORTAVEF

Á kortavef Garðabæjar er hægt að sjá yfirlit yfir leiksvæði og upplýsingar um hvert leiksvæði. Einnig er hægt að sjá þar yfirlit yfir göngustíga, útivistarstíga og reiðleiðir.