Hvað er að frétta í Garðabæ?
Hvernig líður krökkunum okkar, hvað er að frétta í skólamálum og hvernig standa framkvæmdir í bænum? Þetta og fleira verður í brennidepli á íbúafundum Garðabæjar í október.
-
Hvernig líður krökkunum okkar, hvað er að frétta í skólamálum og hvernig standa framkvæmdir í bænum? Þetta og fleira verður í brennidepli á íbúafundum Garðabæjar í október.
Þrír íbúafundir eru fyrirhugaðir í Garðabæ í október. Yfirskrift fundanna er „Hvað er að frétta í Garðabæ“ og mun Almar Guðmundsson bæjarstjóri Garðabæjar ásamt sviðsstjórum bjóða íbúum til samtals og sitja fyrir svörum.
Farið verður yfir hvað er að gerast í framkvæmdum, umhverfismálum, fjölskyldumálum og skólamálum. Á fundunum fá íbúar tækifæri til að fara yfir það sem þeim liggur á hjarta, taka til máls og bera fram fyrirspurnir.
Fundirnir eru skipulagðir út frá hverfum bæjarins en athygli er vakin á því að hverfaskiptingin er aðeins leiðbeinandi og eru fundir opnir öllum og íbúar geta mætt á þann fund sem hentar best.
Dagsetningar:
- Fyrsti fundur verður haldinn í Álftanesskóla þann 9. október, klukkan 19:30.
- Annar fundur fer fram í Flataskóla þann 14. október, klukkan 19.30.
- Þriðji fundur verður haldinn 16. október klukkan 19.30 í Urriðaholtsskóla.
Boðið verður upp á kaffi og léttar veitingar. Öll velkomin og hlökkum til samtalsins.
Fyrir áhugasama sem komast ekki á fundina verður hægt að horfa á upptökur af þeim síðar.