22. ágú. 2023

Þriðja úthlutun leikskólaplássa gengur vel

Garðabær auglýsir nú fjölbreytt og spennandi störf í leikskólum bæjarins og daglega eru leikskólarnir að ráð til sín nýtt fólk. 

  • Canva

Garðabær er nú að úthluta leikskólaplássum í þriðja sinn á þessu ári. Stefnt er að börn sem fædd eru í ágúst 2022 fái úthlutað leikskólaplássum og hins vegar sá hópur barna sem bæst hefur við frá annarri úthlutun og fædd eru fyrir í júlí 2022, en sú fjölgun helst í hendur við fjölgun íbúa í bænum.

Foreldrar 14 barna sem þegar hafa fengið leikskólapláss eru ekki komnir með dagsetningu á upphaf aðlögunar vegna manneklu. Garðabær auglýsir nú fjölbreytt og spennandi störf í leikskólum bæjarins og daglega eru leikskólarnir að ráða til sín nýtt fólk.

Í raun eru 80 pláss laus á leikskólum bæjarins, en starfsfólk vantar til að hægt sé að bjóða þau fram. Garðabær hefur upp á mikið að bjóða, starfsumhverfi leikskólanna eru í stöðugri endurskoðun og við vonumst til að fólk grípi tækifærið til að vinna á góðum og spennandi vinnustöðum,“ segir Linda Udengard, sviðsstjóri menningar- og fræðslusviðs Garðabæjar. „Sérstaða Garðabæjar er auðvitað sú að nánast öll börn sem eru orðin 12 mánaða þegar skólaárið hefst, 1. september ár hvert, eiga kost á leikskóladvöl. Við gerum okkar besta til að geta orðið við því í ört stækkandi bæjarfélagi.

Foreldrar barna í Garðabæ, sem hafa náð 12 mánaða aldri en hafa ekki hafið leikskólavist, geta sótt um biðlistagreiðslur frá þeim degi sem þau skila inn umsókn um leikskóladvöl. Er þetta gert til að koma til móts við fjölskyldur eftir að fæðingarorlofi lýkur.

Með nýjum leikskóla í Urriðaholti, sem tekinn verður í notkun fljótlega á nýju ári, er áætlað að hægt verði að mæta börnum sem fædd eru á síðustu mánuðum ársins 2022 og í upphafi árs 2023 og bjóða þeim leikskólavist. 

Tilkoma 5 ára deildar í Sjálandsskóla hefur haft mikið að segja, en þar eru nú 27 nemendur og í framtíðinni verður hægt að bjóða upp á leikskólapláss fyrir 40 nemendur í skólanum.