20. jún. 2023

Innritun í leikskóla Garðabæjar gengur vel

  Tvær úthlutanir hafa farið fram árið 2023, en í febrúar fengu öll börn sem óskað höfðu eftir leikskólaplássi og voru fædd árið 2021 pláss. 

  • Leikskólinn Sunnuhvoll

Vinna við innritun leikskólabarna hefur gengið vel á árinu. Garðabær vonast til að geta boðið öllum börnum sem fædd eru í ágúst 2022 og fyrr leikskólavist nú í ágúst 2023. Almennt taka leikskólar við börnum í aðlögun frá miðjum ágúst.

Þann fyrsta maí voru 1.325 börn í leikskólum í Garðabæ. Í ágúst munu þau börn sem fædd eru 2017 og eru í elsta árgangi leikskólans færast upp í grunnskóla en gert er ráð fyrir að allflest muni ljúka sinni leikskólagöngu í júní/júlí.

Tvær úthlutanir hafa farið fram árið 2023, en í febrúar fengu öll börn sem óskað höfðu eftir leikskólaplássi og voru fædd árið 2021 pláss. Í þeirri úthlutun var leitast við að systkini færu í sama leikskóla. Í annarri úthlutun sem var í mars fengu börn sem fædd eru í janúar til júlí árið 2022 úthlutað leikskólaplássum. Í þriðju úthlutun sem fram fer í ágúst næstkomandi er stefnt að því að börn fædd í ágúst 2022 fái boð um leikskólapláss en þau börn verða eins árs í sama mánuði.

Á undanförnum tveimur árum hefur leikskóladeildum í Garðabæ fjölgað um alls 14 og með tilkomu nýs leikskóla í Urriðaholti í byrjun árs 2024 eykst enn framboð leikskólaplássa í Garðabæ. Þá má nefna að ný leikskóladeild fyrir fimm ára börn tekur til starfa í Sjálandsskóla í ágúst nk.

Undanfarin misseri hefur mönnun leikskóladeilda verið erfiðari en oft áður og hefur Garðabær haft til umráða leikskólarými en ekki getað opnað þau vegna skorts á starfsfólki. Unnið er að því að efla starfsumhverfi í leikskólum og mun starfshópur skila niðurstöðum sínum fljótlega með tillögum að aðgerðum.

Með nýjum leikskóla í Urriðaholti er áætlað að hægt verði að mæta börnum sem fædd eru á síðustu fjórum mánuðum ársins 2022 og í upphafi árs 2023 og bjóða þeim leikskólavist. Tilkoma 5 ára deildar í Sjálandsskóla mun einnig hafa mikið að segja og vonir standa til að bætt mönnun á leikskólum almennt fjölgi plássum upp að einhverju marki.

Foreldrar barna í Garðabæ, sem hafa náð 12 mánaða aldri en hafa ekki hafið leikskólavist, geta sótt um biðlistagreiðslur frá þeim degi sem þau skila inn umsókn um leikskóladvöl. Er þetta gert til að koma til móts við fjölskyldur eftir að fæðingarorlofi lýkur. Í júní var sótt um greiðslur fyrir alls 96 börn og því mun draga verulega úr fjölda biðlistagreiðslna þegar innritun í leikskóla hefst í ágúst.