2. sep. 2020

Íslandsmótið í skák haldið í Garðabæ

Íslandsmótið í skák (Skákþing Íslands) fór fram í Garðabæ dagana 22.-30. ágúst sl. þegar teflt var í landsliðsflokki í Álftanesskóla.

  • Verðlaunafhending á Íslandsmótinu í skák
    Frá vinstri: Sigríður Hulda Jónsdóttir, bæjarfulltrúi og formaður skólanefndar grunnskóla, Guðmundur Kjartansson Íslandsmeistari í skák og Gunnar Björnsson, forseti Skáksambands Íslands

Íslandsmótið í skák (Skákþing Íslands) fór fram í Garðabæ dagana 22.-30. ágúst sl. þegar teflt var í landsliðsflokki í Álftanesskóla. Sömu daga var keppt í áskorendaflokki mótsins í skákhöll TR. Skákþing Íslands á sér langa sögu og fyrsta mótið var haldið árið 1913 en í daglegu tali í dag er talað um Íslandsmótið í skák.

Afmælismót Taflfélags Garðabæjar

Íslandsmótið – landsliðsflokkur er haldið af Skáksambandi Íslands og í ár í samstarfi við Taflfélag Garðabæjar með stuðningi Garðabæjar. Taflfélag Garðabæjar er 40 ára á þessu ári og mótið því um leið afmælismót þeirra. Fyrr á þessu ári fór Íslandsmót kvenna fram í Garðabæ en þá var teflt í landsliðsflokki og áskorendaflokki í lok febrúar í fundarrýmum Sveinatungu á Garðatorgi rétt áður en samkomutakmarkanir voru settar á vegna farsóttar.  Sjá frétt hér um Íslandsmót kvenna.

Áhorfendur fylgdust með í beinni á netinu

Upphaflega átti Íslandsmótið í skák sem nú fór fram í Álftanesskóla að fara fram í vor en var frestað vegna Covid. Vegna samkomutakmarkana fór mótið fram án áhorfenda en allar skákir voru sýndar í beinni útsendingu á netinu. 

 Björg Fenger, formaður íþrótta- og tómstundaráðs Garðabæjar, lék fyrsta leik í upphafi móts þegar stórmeistararnir Bragi Þorfinnsson og Hjörvar Steinn Grétarsson mættust. Sigríður Hulda Jónsdóttir, bæjarfulltrúi og formaður skólanefndar grunnskóla, flutti ávarp við slit mótsins.

Guðmundur Kjartansson úr TR varð Íslandsmeistari í þriðja sinn í æsispennandi móti og þeir Bragi Þorfinsson (úr SSON) og Helgi Áss Grétarsson (úr TR) urðu jafnir í 2.-3. sæti. Keppendur voru alls 10 í landsliðsflokki og 38 í áskorendaflokki. Í ár voru þrír keppendur úr Garðabæ sem tóku þátt í landsliðsflokknum þeir Hjörvar Steinn Grétarsson (Huginn), Björn Þorfinnsson (Víkingaklúbburinn) og Dagur Ragnarsson (Fjölnir).

Á vef Skáksambands Íslands, skak.is, má sjá fréttir og myndir frá mótinu og einnig á vef mótsins. Jafnframt er hægt að sjá umfjöllun um mótið á fésbókarsíðu Taflfélags Garðabæjar. 

Íslandsmót karla í skák, verðlaunahafar í landsliðsflokki