8. feb. 2019

Kayak, sirkus, zumba og töfrar í Ásgarðslaug

Sundlauganótt verður haldin í Ásgarðslaug laugardaginn 9. febrúar kl. 17-22. 

  • Ásgarðslaug
    Ásgarðslaug

Hin árlega Vetrarhátíð fer fram dagana 7.-10. febrúar nk. með þátttöku allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Garðabær tekur þátt með því að bjóða upp á dagskrá á Safnanótt föstudaginn 8. febrúar og einnig með þátttöku í Sundlauganótt sem er haldin laugardaginn 9. febrúar. Undanfarin ár hefur Álftaneslaug verið með en þar sem Sundlauganótt ber upp á sama kvöld og þorrablótið á Álftanesi verður í ár boðið upp á dagskrá í Ásgarðslaug á Sundlauganótt frá kl. 17-22.

Ókeypis aðgangur í Ásgarðslaug á Sundlauganótt

Það verður ókeypis aðgangur fyrir alla í laugina um kvöldið. Boðið verður upp á dótasund í barnalauginni fyrri part kvölds frá kl. 17-19, sunddeild Stjörnunnar mætir til leiks og býður upp á örkennslu í sundtækni. Jafnframt verður hægt að prófa kayak í sundlauginni milli kl. 17-18.  Töframaðurinn Jón Víðis mætir kl. 18:30 og skemmtir gestum og hægt verður að leika sér með sirkusdót á staðnum frá 17-19 auk þess sem Sirkus Íslands mætir með skemmtilegt fimleikasirkusatriði kl.19:30. Sundlaugagestir gesta svo fjölmennt í hressilegan zumbatíma í sundlauginni kl. 20 og svo verður róleg stemning seinni part kvölds. Sundlaugin verður lýst upp til að skapa notalega stemningu og einnig verður spiluð tónlist. 


Í viðburðadagatalinu á vef Garðabæjar er hægt að sjá tímasetta dagskrá í Garðabæ á Safnanótt og á Sundlauganótt en jafnframt er hægt að sjá dagskrá annars staðar á höfuðborgarsvæðinu á vef Vetrarhátíðar.