Kenna árangursríkar uppeldisaðferðir á PMTO-foreldranámskeiði
Fræðslu- og frístundasvið og velferðarsvið Garðabæjar mun í haust bjóða upp á PMTO-foreldranámskeið. Námskeiðið miðar að því að kenna árangursríkar aðferðir í uppeldi og að efla foreldra í uppeldishlutverkinu.
Fræðslu- og frístundasvið og velferðarsvið Garðabæjar mun í haust bjóða upp á PMTO-námskeið fyrir foreldra barna aldrinum 4-12 ára með vægan/miðlungs samskipta- og hegðunarerfiðleika. Námskeiðið miðar að því að kenna árangursríkar aðferðir í uppeldi og að efla foreldra í uppeldishlutverkinu.
PMTO stendur fyrir Parent Management Training – Oregon. Um sannprófað meðferðarprógramm er að ræða, ætlað foreldrum barna með samskipta- og/eða hegðunarerfiðleika. Úrræðið hentar foreldrum barna á leik -og grunnskólaaldri. Rannsóknir hafa leitt í ljós að aðferðir PMTO draga úr hegðunarerfiðleikum barna og hefur auk þess jákvæð áhrif á samskipti innan fjölskyldu og frammistöðu barna í námi.
Leiðbeinendur á námskeiðinu verða Berglind B. Sveinbjörnsdóttir uppeldisfræðingur M.ed. og PMTO meðferðaraðili og Stefanía Dögg Jóhannesdóttir, uppeldisfræðingur M.A. og PMTO meðferðaraðili.
Berglind segir PMTO-aðferðina afar gagnlega og kenna foreldrum að bregðast við á jákvæðan hátt. Aðferðin ýtir undir samstarf og tengsl á milli foreldra og barna.
„PMTO styður foreldra í að takast á við krefjandi uppeldisaðstæður – þú færð skýrar leiðir til að efla tengsl, draga úr hegðunarvanda og skapa rólegra heimili. Flest börn sýna erfiða hegðun á einhverjum tímapunkti, en oftast gengur það tímabil yfir. Þegar svo er ekki þurfa foreldrar oft á tíðum aðstoð, einkum þegar samskipti barnsins innan fjölskyldunnar, í skólanum eða annars staðar í umhverfinu eru orðin neikvæð. Í PMTO-styðjandi foreldrafærni er lögð áhersla á vinnu með foreldrum þar sem þeir eru mikilvægustu kennarar barna sinna,“ segir Berglind.