Lægri skattar og skuldahlutfall lækkar verulega
Afkoma Garðabæjar er traust og skuldahlutfall bæjarins lækkar verulega.
Fasteignaskattar lækka og verða þeir lægstu á höfuðborgarsvæðinu.
Bæjarstjórn Garðabæjar hefur samþykkt fjárhagsáætlun ársins 2026. Seinni umræða um áætlunina fór fram í dag, fimmtudaginn 4. desember 2025.
Fjárhagsáætlunin endurspeglar áfram sterkan rekstur sveitarfélagsins, lækkandi skuldahlutfall og metnaðarfull verkefni sem styðja við lífsgæði íbúa á öllum aldri.
„Við göngum sterk inn í 50 ára afmælisár Garðabæjar. Reksturinn er traustur, við sýnum ábyrga fjármálastjórn þar sem skuldaviðmið lækkar um 10 prósentustig og stillum lántökum mjög í hóf þrátt fyrir mikla uppbyggingu. Við lækkum fasteignaskatta á íbúa og fyrirtæki og leggjum á mun lægra útsvar en önnur stór sveitarfélög. Við horfum björtum augum til framtíðar þrátt fyrir blikur á lofti í efnahagsmálum og vitum að við getum áfram veitt ánægðum íbúum í Garðabæ fyrsta flokks þjónustu,“ segir Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar.
Hápunktur ársins 2026 verður 50 ára kaupstaðarafmæli Garðabæjar, sem fagnað verður með fjölbreyttum viðburðum yfir árið.
Helstu atriði fjárhagsáætlunar:
- Rekstrarniðurstaða A- og B- hluta árið 2026 er áætluð jákvæð um 594 m.kr.
- Rekstrarniðurstaða A sjóðs er 146 m.kr.
- Veltufé frá rekstri nemur 2.054 m.kr. og rekstrarafkoma fyrir afskriftir 4.356 m.kr.
- Fjármagnsgjöld nema 1.730 m.kr. og lækka um tæplega 400 milljónir á milli ára.
- Gert er ráð fyrir um 200 m.kr. rekstrarhagræðingu á árinu 2026 en hagræðing hefur skilað um milljarði króna í lægri rekstrarkostnað á undanförnum árum.
- Skuldaviðmið er áætlað 87,2% og hefur lækkað um 10% á tveimur árum.
- Framkvæmt verður fyrir 6.320 m.kr. á árinu 2026, en hrein lántaka er á sama tíma óveruleg.
Hægari bati hefur orðið í grunnrekstri sveitarfélagsins á þessu ári. Meginskýringin á því er viðbótarkostnaður við kjarasamninga á yfirstandandi ári auk lægra framlags frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.
Garðabær er hér eftir sem hingað til vel innan allra lögbundinna viðmiða sveitarstjórnarlaga um skuldastýringu og jafnvægi í rekstri
Hvatapeningar hækka, tónlistarskólinn stækkar og efling velferðar
Verkefni ársins 2026 samkvæmt fjárhagsáætlun innihalda fjölbreyttar áherslur á öllum sviðum.
Skólastarf, frístundir og íþróttir
Hvatapeningar til frístundaiðkunar barna hækka um 11,6% í 67.000 krónur á árinu 2026. Viðbótarhvatapeningar fyrir börn á tekjulægri heimilum geta bæst við þannig að heildarupphæð hvatapeninga til þeirra nemi 82.000 krónum. Það er hæsti frístundastyrkur á Íslandi og undirstrikar mikilvægi þess að öll börn hafi aðgang að fjölbreyttu og uppbyggilegu tómstundastarfi. Stuðningur er aukinn við íþróttafélög bæjarins og ferðastyrkir fyrir afreksfólk í íþróttum hækka.
Öflugt skólasamfélag Garðabæjar og þjónusta við börn fá verulega innspýtingu með verkefnum sem snúa að mælingum á námsárangri, stuðningi til að mæta skólaforðun og stórauknum stuðningi til barna í viðkvæmri stöðu. Þá verður markvisst unnið að fjölgun fagfólks í leikskólum Garðabæjar og áfram lögð áhersla á að bæta starfsumhverfi skólanna.
Framkvæmdir, uppbygging og skilvirkari þjónusta
Urriðaholtsskóli verður fullbyggður á árinu með nýrri sundlaug og íþróttahúsi. Samtímis hefst hönnun og undirbúningur fyrir nýjan grunnskóla í Hnoðraholti. Byggt verður við Tónlistarskóla Garðabæjar, sem fær þá langþráð viðbótarhúsnæði. Einnig verður ráðist í byggingu búsetukjarna í Hnoðraholti fyrir fatlað fólk. Þá verður frístundaþjónusta við fötluð ungmenni efld og færð í nýtt húsnæði.
Umfangsmiklar fráveituframkvæmdir á Álftanesi halda áfram. Útivistarstígur verður lagður í Gálgahrauni sem tengir saman Álftanes og Sjáland og göngugatan á Garðatorgi verður endurnýjuð.
Stuðningur verður aukinn við félög eldri borgara og stefnan í málaflokknum mörkuð til framtíðar. Framlög til stafrænnar og skilvirkari þjónustu aukast, með áherslu á fjölbreyttar og gagnvirkar leiðir í samskiptum íbúa við bæjarfélagið sitt.
Hér vill fólk búa
„Það er mikið uppbyggingarskeið í Garðabæ þessi misserin og við finnum sterkt að það er eftirsóknarvert að búa í sveitarfélaginu. Íbúarnir eru ánægðir með þjónustuna, sem endurspeglast í niðurstöðum þjónustukannana ár eftir ár. Við höldum áfram að byggja upp með það að markmiði að bjóða núverandi og nýjum íbúum framúrskarandi þjónustu. Fram undan er meðal annars úthlutun sérbýlislóða á háholti Hnoðraholts, sem við reiknum með að verði mjög vinsælar. Í framhaldinu munum við bjóða fleiri sérbýlislóðir á öðrum stöðum í bænum enda eftirspurnin mikil,“ segir Almar.
Hér má kynna sér fjárhagsáætlun ársins 2026 og fylgiskjöl.
