26. jan. 2026

Leikskólainnritun gengur vel og plássum fjölgar

Innritun í leikskóla Garðabæjar hefur gengið vel og um miðjan janúar höfðu öll börn fædd í byrjun desember 2024 eða fyrr fengið boð um leikskólavist.

Innritun í leikskóla Garðabæjar hefur gengið vel og um miðjan janúar höfðu öll börn fædd í byrjun desember 2024 eða fyrr fengið boð um leikskólavist.

Búið er að innrita í öll laus pláss en vert er að minna á að innritun í leikskóla í Garðabæ á sér stað allan ársins hring, eftir því sem pláss losna.

Næsta stóra innritunarlota hefst 25. mars þá verður þeim plássum úthlutað sem losna þegar heill árgangur barna hefur grunnskólagöngu að hausti Einnig verða flutningsumsóknir afgreiddar þá. Innritun heldur áfram eftir páska, þegar ljóst verður hversu mörg pláss eru laus í hverjum skóla.

Líkt og áður verður biðlisti frystur í allt að 30 daga, frá 25. mars, til að hægt sé að vinna úr umsóknum. Við minnum foreldra á að yfirfara umsóknir og uppfæra eftir þörfum fyrir 25. mars.

Vala leikskólakerfi heldur utan um flest sem viðkemur umsókn og leikskóladvöl barnsins. Hér má finna leiðbeiningar fyrir Völu leikskólakerfi.

Plássum fjölgar

Ný og stærri 5 ára deild Sjálandsskóla var nýverið tekin í notkun í sér húsnæði á lóð skólans. 5 ára deild Sjálandsskóla rúmar 60 börn í heildina; 37 börn eru nú á deildinni og því 23 laus pláss.

Verið er að standsetja Litlakot sem er staðsett á lóð leikskólans Krakkakots á Álftanesi, þar með mun leikskólaplássum fjölga um 15 á vormánuðum. Innritað verður í þau pláss um leið og húsnæði og mönnun leyfir.

Nokkrar praktískar upplýsingar fyrir fjölskyldur:

  • Skilyrði fyrir leikskóladvöl er að barn eigi lögheimili í Garðabæ og sýnt sé fram á búsetu í bænum. Sjá nánar hér:  Innritunarreglur

  • Vala leikskólakerfi heldur utan um flest sem viðkemur umsókn og leikskóladvöl barnsins.

  • Við innritun í leikskóla er tekið mið af kennitölu barna, þau elstu fá úthlutað fyrst. Í Garðabæ fer fram innritun í laus leikskólapláss allt árið.

  • Þegar pláss losnar er það boðið til barns á biðlista í samræmi við innritunarreglur. Foreldrum er sent bréf þegar barn fær leikskóladvöl. Foreldrar hafa 5 virka daga í umhugsunarfrest, eftir það er barnið tekið af biðlista.

  • Biðlistagreiðslur: Ef barn sem er orðið 12 mánaða og eldri er ekki byrjað í leikskóla en búið að fá úthlutað plássi er hægt að sækja um greiðslur þar til barnið byrjar í aðlögun á leikskólanum. Sjá nánar hér: Biðlistagreiðslur

Sjá einnig: Í leikskólum Garðabæjar starfar samhentur hópur ólíkra einstaklinga með fjölbreyttan bakgrunn. Leikskólakennarar sem hafa áhuga á að kynna sér leikskólastarfið í Garðabæ er bent á síðuna www.starfabaer.is, en fjölmörg fríðindi eru í boði auk þess sem stytting vinnuvikunnar er að fullu komin til framkvæmda.