2. júl. 2021 Menning og listir

Litrík listaverk á Jónsmessugleði Grósku

Litrík listaverk voru til sýnis við Strandstíginn í Sjálandshverfi Garðabæjar á Jónsmessugleði Grósku sem var haldin í tólfta sinn fimmtudaginn 24. júní sl.

  • Jónsmessugleði Grósku 24. júní 2021
    Jónsmessugleði Grósku 24. júní 2021

Jónsmessugleði Grósku var haldin í tólfta sinn fimmtudaginn 24. júní með þemanu „leiktjöld litanna“. Litrík listaverk voru til sýnis við Strandstíginn í Sjálandshverfi Garðabæjar og að þessu sinni stóð sjálf myndlistarsýningin yfir fram til sunnudagsins 27. júní kl. 18.
Auk sýningarinnar voru alls konar listviðburðir á dagskrá bæði á austursvæði Strandstígsins og vestursvæði þar sem ungir listamenn í skapandi sumarstörfum Garðabæjar réðu ríkjum. Kvöldinu lauk með því að listamenn í Grósku og gestalistamenn frá Kópavogi, Reykjavík, Vestmannaeyjum og Rangárþingi ytra frömdu gjörninginn ,,Myndun" og mynduðu listaverk úr sjálfum sér.

Gróska, félag myndlistarmanna í Garðabæ, hefur staðið fyrir Jónsmessugleði í samstarfi við Garðabæ á hverju ári síðan 2009 nema hvað aflýsa þurfti gleðinni í fyrra vegna fjöldatakmarkana. Nú lögðu margir leið sína á Strandstíginn aftur og skörtuðu litríkum klæðum og höttum. Auðfundið var að Garðbæingar fögnuðu því að endurheimta Jónsmessugleði Grósku. Kvöldið einkenndist af kraftmikilli listrænni sköpun, ljúflyndum léttleika og fögnuði yfir því að hitta aftur góða vini, kunningja og annað fólk eftir einangrun og aðskilnað á ári faraldursins.

Ljósmyndir með frétt eru frá Grósku, ljósmyndari er Nanna Guðrún. 
Fleiri myndir frá Jónsmessugleðinni má sjá á fésbókarsíðu Grósku.

Jónsmessugleði Grósku 24. júní 2021

Jónsmessugleði Grósku 24. júní 2021

Jónsmessugleði Grósku 24. júní 2021