„Lýðheilsa snýst um svo margt annað en hreyfingu“
Sólveig Valgeirsdóttir er nýr forstöðumaður félagsmiðstöðva eldra fólks hjá Garðabæ. Sólveig hefur víðtæka reynslu af störfum tengdum lýðheilsu og spennt að þróa félagsstarfið áfram.
Sólveig Valgeirsdóttir er nýr forstöðumaður félagsmiðstöðva eldra fólks hjá Garðabæ. Hún lauk íþróttakennaraprófi frá ÍKÍ 1988, BS í íþróttafræði frá Háskóla Íslands 2007, ásamt því að hafa lokið 30 eininga námi í opinberri stjórnsýslu. Sólveig hefur víðtæka reynslu af störfum tengdum lýðheilsu.
Sólveig kenndi íþróttir í Hofsstaðaskóla í 16 ár en frá 2007 hefur hún starfað hjá Reykjavíkurborg á menningar- og íþróttasviði og komið að fjölmörgum verkefnum, m.a. starfað sem forstöðumaður í tveimur sundlaugum, unnið að öryggis- og gæðamálum í sundlaugum Reykjavíkur og sinnt öryggis- og vinnuverndarmálum á sviðinu. Hjá Reykjavíkurborg sat hún í nokkrum starfshópum m.a. um heilsueflingu starfsfólks, lýðheilsu almennings og öryggismálum.
Félagslegi þátturinn mikilvægur
Sólveig er spennt fyrir nýju starfi. „Ég er að taka við góðu búi. Það er nú þegar heilmikið í boði í Garðabæ þegar kemur að íþróttum og tómstundum fyrir eldra fólk, og væri gaman að efla starfið enn frekar. Mikilvægt er að ná til þeirra sem eru ekki að sækja starfið nú þegar og hafa eitthvað í boði fyrir alla óháð efnahag. Lýðheilsa snýst um svo margt annað en hreyfingu en lýðheilsa er ekki síður félagsleg þátttaka og svo er alltaf mikilvægt að huga að næringunni,“ segir Sólveig.
Sólveig segir Virkniþing eldra fólks í Garðabæ sem haldið var í ágúst vera til marks um hversu virkt og áhugasamt eldra fólk í Garðabæ er. Á Virkniþinginu var því fjölbreytta starfi sem í boði er fyrir eldra fólk í Garðabæ komið á framfæri. „Það var frábært að sjá hversu góð þátttakan var.“
Fljótlega mun Lambamýri, ný félagsmiðstöð fyrir eldra fólk í Garðabæ, á Álftanesi, opna. „Sú viðbót mun styrkja það öfluga starf sem nú er í boði enn frekar. Það verður spennandi að þróa það áfram með því góða fólki sem starfar fyrir félög eldri borgara í Garðabæ og Álftanesi og í samtali við notendur félags- og íþróttastarfsins.“
