29. ágú. 2019

Lýðheilsugöngur í september

Garðabær tekur þátt í verkefni Ferðafélags Íslands um lýðheilsugöngur alla miðvikudaga í september.

  • Lýðheilsuganga Heiðmörk
    Lýðheilsuganga Heiðmörk

Garðabær tekur þátt í verkefni Ferðafélags Íslands um lýðheilsugöngur í september. Alla miðvikudaga getur almenningur tekið þátt í lýðheilsugöngum um allt land. Þetta er þriðja árið í röð sem blásið er til þessa átaks en göngurnar eru um leið áframhald vinsælla sögu- og fræðslugangna Garðabæjar sem hafa verið farnar á undanförnum árum.

Göngurnar hefjast kl. 18:00 alla miðvikudaga vítt og breitt um landið og er fyrsta gangan miðvikudaginn 4. september. Um er að ræða fjölskylduvænar göngur sem eru uþb 60-90 mínútur að lengd. Tilgangurinn með verkefninu er að hvetja fólk á öllum aldri til útivistar og hreyfingar í góðum félagsskap og efla þar með heilsu sína og lífsgæði.

Gengið í Heiðmörk miðvikudaginn 4. september

Boðið verður upp á göngur í Garðabæ miðvikudagana 4., 11., 18. og 25. september. Náttúra er þema fyrstu göngunnar þar sem gengið verður í Heiðmörk þann 4. september kl. 18. Mæting er við bílastæði við Maríuvelli þar sem Erla Bil Bjarnardóttir leiðir göngu upp eftir Urriðakotshrauni og niður með Vífilsstaðahlíð aftur á Maríuvelli.
Hér í viðburðadagatalinu má sjá mynd sem sýnir bílastæði við Maríuvelli.

Miðvikudaginn 11. september verður haldið í hressingargöngu frá íþróttamiðstöðinni Ásgarði með viðkomu í nýja Bæjargarðinum. Miðvikudaginn 18. september verður gengið á Álftanesi frá Kasthúsatjörn meðfram sjónum og umhverfis Bessastaðatjörn og sú ganga er einnig í samvinnu við SÍBS, Vesen og vergang og Wapp leiðsöguappið. Síðasta gangan verður miðvikudaginn 25. september en þá verður gengið frá Garðakirkju um Garðahverfi með viðkomu m.a. í burstabænum Króki.

Góður félagsskapur Garðabær er heilsueflandi samfélag

Allar göngurnar verða kynntar í viðburðadagatalinu á vefnum og einnig verða upplýsingar um göngurnar  á fésbókarsíðu Garðabæjar . Garðbæingar eru hvattir til að taka þátt í göngunum þar sem boðið verður upp á fróðleik, auðvelda hreyfingu og umfram allt góðan félagsskap göngumanna.