Markmiðið að skapa sannkallaðan ævintýraheim
Kristín Guðjónsdóttir og Halla Kristjánsdóttir eru upplifunarhönnuðir Jazzþorpsins. Þær segja ánægjulegt að sjá að fólk á öllum aldri sæki hátíðina og njóti þess að vera á svæðinu á meðan á henni stendur. Tónlistin, öll umgjörð hátíðarinnar og góðar veitingar laðar fólk að.
Garðatorg breytist í Jazzþorp dagana 2. – 4. maí þar sem margt af helsta tónlistarfólki landsins kemur fram. Umgjörð Jazzþorpsins leikur stórt hlutverk því hátíðin er ekki bara alvöru tónlistarveisla heldur líka algjör ævintýraheimur þegar kemur að allri framsetningu og útliti.
Það eru þær Kristín Guðjónsdóttir og Halla Kristjánsdóttir sem eru upplifunarhönnuðir Jazzþorpsins. Þeirra hlutverk er að skapa þessa ævintýralegu en jafnframt notalegu stemningu á svæðinu sem einkennir hátíðina. Heimsókn á Jazzhátíðina á að vera upplifun og skemmtun að þeirra sögn.
Mublur og stofustáss með sál og sögu setja sterkan svip á svæðið á meðan á Jazzþorpinu stendur. Um þessar mundir eru þær Halla og Kristín í óðaönn að finna réttu munina í Góða Hirðinum sem munu prýða Garðatorg og sömuleiðis verða til sölu.
Halla og Kristín leggja áherslu á að finna skemmtilega, vandaða og fallega hluti í Góða hirðinum.
„Við erum í frábæru samstarfi við Góða Hirðinn. Við fáum að velja hvern og einn hlut sem okkur finnst passa inn í þetta „konsept“ okkar. Þetta eru allt flottir munir sem ýta undir þessa góða stemningu sem við viljum skapa á svæðinu. Þau hjá Góða Hirðinum eru mjög spennt fyrir þessu verkefni og sjá að tónlistarhátíð sem þessi og hringrásarhagkerfið spilar vel saman. Þeirra stuðningur, velvilji og áhugi hjálpar okkur mikið,“ segir Kristín.
Líkt og áður mun allur ágóði af sölu húsgagna renna til góðgerðamála. Í ár rennur söluágóðinn til Krafts, stuðningsfélags fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þeirra. „Það er góð tilfinning að vita að Jazzþorpið geti látið gott af sér leiða með þessum hætti,“ segir Halla.
Gestir geta keypt vönduð húsgögn og muni úr Góða Hirðinum á meðan á Jazzþorpinu stendur.
Nostalgía og notalegheit
Spurðar út í helstu áherslur segjast þær Kristín og Halla vilja skapa spennandi og skemmtilegan ævintýraheim.
„Í fyrra talaði margt fólk um að það upplifði nostalgíu og að því liði eins og það væri statt á markaði erlendis, það gladdi okkur að heyra,“ segir Halla.
Þær segja ánægjulegt að sjá að fólk á öllum aldri sæki hátíðina og njóti þess að vera á svæðinu á meðan á henni stendur. „Tónlistin, umgjörðin og góðar veitingar spila þannig saman. Þess má geta að listasmiðurinn Hans Vera sem er með okkur í stjórn Jazzþorpsins hefur séð um alla smíðavinnu fyrir þorpið ásamt ýmiss konar hönnun og hefur notið aðstoðar Ásgarðs handverkstæðis. Svo þegar kemur að því að setja þorpið upp njótum við aðstoðar frá teymi Áhaldahúss Garðabæjar undir stjórn Daníels Hoe. Jazzþorpið er einstakt og Garðabær sýnir mikinn metnað með því að styðja við menningarviðburð af þessu tagi,“ bætir Kristín við að lokum.