10. jan. 2019

Miðsvæði Álftaness - nýjar deiliskipulagsáætlanir í auglýsingu

Bæjarstjórn Garðabæjar hefur nýverið auglýst tillögur að deiliskipulagi miðsvæðis Álftaness. Í heildina er gert ráð fyrir um 401 nýrri íbúð á svæðinu. 

  • Miðsvæði Álftaness - deiliskipulagstillögur
    Miðsvæði Álftaness - deiliskipulagstillögur

Bæjarstjórn Garðabæjar hefur nýverið auglýst tillögur að deiliskipulagi miðsvæðis Álftaness í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Tillögurnar eru settar fram í fimm deiliskipulagsáætlunum sem ganga undir nöfnunum Breiðamýri, Krókur, Helguvík, Skógtjörn og Kumlamýri. Í heildina er gert ráð fyrir um 401 nýrri íbúð á svæðinu.

• Breiðamýri – í tillögunni er gert ráð fyrir 270 íbúðum í 9 fjölbýlishúsakjörnum.
• Krókur – í tillögunni er gert ráð fyrir 54 íbúðum í raðhúsum.
• Helguvík – í tillögunni er gert ráð fyrir 23 einbýlishúsum.
• Kumlamýri – í tillögunni er gert ráð fyrir 40 íbúðum í parhúsum.
• Skógtjörn - Í tillögunni er gert ráð fyrir að núverandi byggð við Búðarflöt, Lambhaga, Höfðabraut, Miðskóga, Brekkuskóga, Ásbrekku, Bæjarbrekku, Kirkjubrekku og Tjarnarbrekku verði hluti skipulagssvæðisins ásamt 14 nýjum einbýlis- og parhúsum sunnan við Bæjarbrekku.

Lesa má nánar um og sjá gögn með tillögunum hér á vef Garðabæjar  auk þess sem tillögurnar eru aðgengilegar í þjónustuveri Garðabæjar. Þeir sem telja sig eiga hagsmuna að gæta er gefinn kostur á að senda inn athugasemdir við tillögurnar á netfangið skipulag@gardabaer.is. Frestur til að skila inn athugasemdum rennur út 7. febrúar 2019.

Miðsvæði Álftaness - loftmynd - deiliskipulagstillögur

Framkvæmdasamkeppni um deiliskipulag Álftaness

Tillögurnar sem nú eru kynntar eru afrakstur áframhaldandi vinnu með vinningshöfum í framkvæmdasamkeppni um deiliskipulag fyrir miðsvæði Álftaness sem var unnin í samstarfi við Arkitektafélag Íslands árið 2017. Í byrjun þess árs var haldin íbúafundur á Álftanesi þar sem íbúar fengu tækifæri til að koma hugmyndum og ábendingum að og fylgdu þær með sem fylgiskjal með keppnislýsingunni. Vinningstillögurnar voru kynntar sumarið 2017 með sýningu í íþróttamiðstöðinni á Álftanesi og á vef Garðabæjar. Í framhaldinu var unnið með tillögu ,,Andersen & Sigurdsson Arkitekter“ sem lenti í fyrsta sæti en deiliskipulagshöfundur er Þórhallur Sigurðsson arkitekt. Einnig koma að verkinu Landslag, Viaplan og Verkís.

Íbúafundur á Álftanesi 16. janúar kl. 17:15

Boðað er til íbúafundar í hátíðarsal íþróttamiðstöðvarinnar á Álftanesi, miðvikudaginn 16. janúar klukkan 17:15 – 19:00. Þar verða tillögurnar um miðsvæði Álftaness kynntar og spurningum svarað.

Íbúafundurinn - viðburður á fésbókarsíðu Garðabæjar.