Mikil gleði með nýja félagsmiðstöð í Flataskóla
„Það er rosaleg gleði meðal ungmennanna með þessa nýjung. Það sést á mætingunni,“ segir Áskell Dagur Arason um nýja félagsmiðstöð innan Flataskóla sem nýverið tók til starfa.
Ný félagsmiðstöð fyrir 7. bekkinga var opnuð innan Flataskóla fyrir áramót. Það er Áskell Dagur og Kolbrún Helga Arnarsdóttir sem hafa umsjón með starfinu í félagsmiðstöðinni. Þau þekkja nemendurna vel en Áskell er forstöðumaður Krakkakots, frístundaheimilis Flataskóla, og Kolbrún starfar einnig þar sem frístundaleiðbeinandi.
En hvað heitir nýja félagsmiðstöðin? „Við völdum nafn sem kom frá krökkunum. Eftir margar tillögur og hugmyndir varð nafnið Fjaran fyrir valinu. Helsta ástæðan fyrir valinu var slagorðið Það er fjör í Fjörunni,“ segir Áskell Dagur.
„Það er rosaleg gleði meðal ungmennanna með þessa nýjung. Það sést á mætingunni. Við erum með mætingarlista sem að krakkarnir skrá sig inn á þegar þau mæta og hefur mætingin alltaf verið yfir 80% af fjölda ungmennanna. Krakkarnir hafa verið að biðja mikið um þetta síðastliðna mánuði og ár.“
Spurður út í helstu áherslur í starfinu segir Áskell Dagur: „Helstu áherslurnar okkar eru að ýta undir sjálfstæði, bjóða upp á fjölbreytta starfsemi, félagslegt öryggi og vellíðan. Við viljum stuðla að því að ungmennin fái tækifæri til að tjá sig og koma hugmyndum sínum á framfæri. Við sérsníðum dagskránna eftir þörfum og áhuga þátttakenda og virkjum þau í mótun á starfseminni. Við viljum efla sjálfsmynd og sjálfstraust ungmennanna og byggja upp jákvæð tengsl við jafningja og starfsfólk.“
Áskell Dagur bendir á að félagsmiðstöðin eigi að vera skemmtilegur staður fyrir krakkana, þeirra afdrep til að njóta og skemmta sér. En hún er líka mikilvægur vettvangur fyrir nemendurna hvað svo margt annað varðar.
„Markmið mitt er að krakkarnir eignist sinn eigin stað innan veggja skólans þar sem þau geta komið að chilla, spjallað við vini sína og starfsmenn, prófað nýja og skemmtilega hluti og fyrst og fremst haft gaman og verið þau sjálf í öruggu umhverfi. Félagsmiðstöð er samt ekki bara staður fyrir skemmtun, hún er líka mikilvægur hluti af þroska barna á þessum aldri og hjálpar þeim að verða sterkari félagslega og persónulega. Það er fjárfesting í vellíðan og framtíð barnsins.“