Náttúra og útivist við Urriðavatn
Urriðavatn og lífríki þess er sannkölluð náttúruperla og mikilvægt að vernda það sem slíkt. Útivistarfólk er hvatt til að ganga vel um Urriðavatn, svæðið umhverfis það og virða friðhelgi fugla yfir varptímann.
-
Séð yfir Urriðavatn. Ljósmynd Alta.
Urriðavatn og votlendið umhverfis það er falleg landslagsheild með margslunginn gróður og dýralíf. Hrauntanginn sem gengur út í vatnið gefur umhverfinu afar fallegan og sterkan svip og er skjól fyrir fjölbreytt fuglalíf. Í og við vatnið má meðal annars finna talsvert af urriða, smádýr og háplöntur. Urriðavatn og svæði umhverfis það njóta hverfisverndar í aðalskipulagi Garðabæjar vegna lífríkis og útivistargildis.
Fjölbreytt dýralíf og saga
Við Urriðavatn er að finna fjölmörg fræðsluskilti um fuglalíf sem voru sett upp fyrir tveimur árum síðan í samstarfi Garðabæjar og Toyota á Íslandi. Á fræðsluskiltunum er að finna margvíslegan fróðleik um flórgoða, álft, skúfönd, þúfutittling, hrossagauk, stelk, stokkönd, heiðlóu, tjald, rauðhöfðaönd, lóuþræl og skógarþröst en allt eru það fuglategundir sem sjást við vatnið.
Í Urriðavatni eru tvær fisktegundir, urriði og hornsíli. Búsvæði og vistsamfélag Urriðavatns veitir urriðanum og hornsílunum sérstöðu og eykur verndargildi þeirra. Ástand urriðastofnsins í Urriðavatni er talið gott en stofninn er mjög viðkvæmur fyrir veiði þar sem nýliðun urriðans er takmörkuð í vatninu og er því öll veiði bönnuð í Urriðavatni.
Auk fræðsluskilta um fuglalíf er einnig að finna upplýsinga- og fræðsluskilti rétt hjá þar sem bærinn Urriðakot stóð eitt sinn norðaustan megin við vatnið (við göngustíg upp í hverfið). Við fornminjauppgröft á árunum 2010-2011 fundust þar leifar af seljum og má sjá þróun þeirra allt frá 10. öld og fram á 14. öld eða allt að því að bærinn að Urriðakoti byggðist þar upp. Landnámsminjarnar sýndu leyfar af skála, fjósi, geymslu, búr og soðholu.
Útivist í kringum vatnið
Stígurinn í kringum Urriðavatn er auðveld gönguleið og hægt að ganga úr hverfinu í Urriðaholti eða frá bílastæðum við Kauptún. Gönguleiðin umhverfis vatnið er vinsæl gönguleið meðal íbúa Urriðaholts sem og annarra gesta sem eiga leið um. Á kortavef Garðabæjar er hægt að sjá gönguleiðir að og frá vatninu og í kringum það.
Á varptíma fugla og uppeldisskeiði unga frá 15. apríl – 15. ágúst er mikilvægt að trufla ekki fuglalífið, á þeim tíma er því óheimilt að ganga með hunda innan hverfisverndaðs svæðis í kringum vatnið. Malbikaður göngustígur sem liggur meðfram byggðinni í Urriðaholti á milli Kauptúns og Flóttamannavegar, norðaustan megin við vatnið, er ekki innan hverfisverndaða svæðisins og þar er hægt að ganga með hunda í taumi allt árið.
Sjá einnig reglur sem gilda umhverfis vatnið hér fyrir neðan ásamt mynd hér neðst sem sýnir hverfisverndaða svæðið umhverfis vatnið.
Reglur við Urriðavatn
- Á varptíma fugla og uppeldisskeiði unga frá 15. apríl – 15. ágúst
- - er óheimilt að vera með hunda innan hverfisverndaðs svæðis í kringum vatnið
- er óheimilt að synda í vatninu - Leyfilegt er að vera með hunda í taumi á malbikuðum göngustíg meðfram byggðinni sem liggur á milli Kauptúns og Flóttamannavegar (norðaustan megin við vatnið). Sá göngustígur er fyrir utan hverfisverndaða svæðið í kringum vatnið.
- Utan varptíma er leyfilegt að ganga umhverfis vatnið með hunda í taumi og alltaf skal fjarlægja saur eftir hund.
- Öll veiði er bönnuð í vatninu.
- Notkun báta og kajaka á vatninu er bönnuð allt árið um kring.
- Óheimilt er að kveikja eld og grilla við vatnið.
Urriðavatn og lífríki þess er sannkölluð náttúruperla og mikilvægt að vernda það sem slíkt. Útivistarfólk er hvatt til að ganga vel um Urriðavatn, svæðið umhverfis það og virða friðhelgi fugla yfir varptímann.
Rauða línan á myndinni sýnir hverfisverndaða svæðið þar sem óheimilt er að vera með hunda á varptímabilinu 15. apríl - 15. ágúst.