6. jan. 2017 Velferð

Ísafold verður sjötta Hrafnistuheimilið

Samningur um að Hrafnista taki við rekstri hjúkrunarheimilisins Ísafoldar í Garðabæ var í dag undirritaður af þeim Gunnari Einarssyni, bæjarstjóra Garðabæjar og Guðmundi Hallvarðssyni stjórnarformanni Sjómannadagsráðs, eiganda Hrafnistu

  • Séð yfir Garðabæ

Samningur um að Hrafnista taki við rekstri hjúkrunarheimilisins Ísafoldar í Garðabæ var í dag undirritaður af þeim Gunnari Einarssyni, bæjarstjóra Garðabæjar og Guðmundi Hallvarðssyni, stjórnarformanni Sjómannadagsráðs, eiganda Hrafnistu. Samkvæmt samningnum tekur Hrafnista við rekstri Ísafoldar, hjúkrunarheimilis frá 1. febrúar 2017. Samningurinn var samþykktur einróma á fundi bæjarstjórnar í gær.

Garðabær hefur rekið hjúkrunarheimilið Ísafold frá árinu 2013 en þar búa 60 einstaklingar. Undanfarið ár hefur Garðabær átt í viðræðum við ríkið um að það taki við rekstrinum en þær viðræður skiluðu ekki árangri. Í framhaldi af því fól bæjarráð bæjarstjóra í nóvember sl. að kanna möguleikann á að þriðji aðili kæmi að rekstrinum. Viðræður Garðabæjar og Hrafnistu hófust í framhaldi af því. Samkomulag lá fyrir í desember og fyrir jólin haldnir voru kynningarfundir með starfsfólki, íbúum og aðstandendum um málið.

Gott orðspor og fagmennska

Af hálfu Garðabæjar hefur verið lögð áhersla á að við rekstri Ísafoldar taki aðili með umfangsmikla þekkingu og reynslu sem geti leitt áframhaldandi framþróun á starfseminni. Gunnar Einarsson bæjarstjóri segir það sína sannfæringu að því markmiði verði náð með samningi við Hrafnistu. „Ég tel það afar góðan kost að Hrafnista taki við rekstri Ísafoldar. Þar er mikil sérþekking og reynsla til staðar sem á eftir að koma starfseminni og íbúum okkar á Ísafold til góða.“ Við undirritun samningsins ítrekaði Gunnar að leitað hefði verið til Hrafnistu vegna góðs orðspors Hrafnistuheimilanna og þeirra fagmennsku sem einkenndi starf þeirra. 

Ein stærsta heilbrigðisstofnun landsins

Hrafnista er í dag ein stærsta heilbrigðisstofnun landsins með starfsemi í fimm sveitarfélögum og þjóna Hrafnistuheimilin um eitt þúsund öldruðum á hverjum degi. Þar af búa tæplega 600 manns í hjúkrunarrýmum sem er um 25% hjúkrunarrýma í landinu. Fyrsta Hrafnistuheimilið tók til starfa í Reykjavík árið 1957 og er því 60 ára á þessu ári. Í Hafnarfirði eru 40 ár síðan Hrafnista tók þar til starfa og 2010 tók þriðja Hrafnistuheimilið til starfa í Kópavogi. Í Reykjanesbæ hefur Hrafnista rekið tvö hjúkrunarheimili, Hlévang og Nesvelli, frá árinu 2014 og verður Ísafold því sjötta hjúkrunarheimilið þar sem Hrafnista annast rekstur.