7. júl. 2011

Íslenski safnadagurinn

Sunnudaginn 10. júlí nk.verður haldið upp á íslenska safnadaginn. Söfn um land allt taka þátt í deginum og bjóða þau mörg upp á sérstaka dagskrá í tilefni hans. Í Garðabæ er fjölbreytt dagskrá og allir eru velkomnir í Hönnunarsafnið sem verður með ratleik, í Króki á Garðaholti verður opið hús og minjagarðurinn að Hofsstöðum er opinn allan sólarhringinn.
  • Séð yfir Garðabæ

Sunnudaginn 10. júlí nk.verður haldið upp á  íslenska safnadaginn. Söfn um land allt taka þátt í deginum og bjóða þau mörg upp á sérstaka dagskrá í tilefni hans. Íslenski safnadagurinn var fyrst haldinn árið 1997 að frumkvæði safnmanna sjálfra. Markmiðið með deginum er að benda á mikilvægi faglegrar varðveislu og miðlunar sameiginlegra verðmæta þjóðarinnar og þá einstöku leið til lifandi þekkingaröflunar og skemmtunar sem finna má á söfnum. Í Garðabæ er fjölbreytt dagskrá og allir eru velkomnir í Hönnunarsafnið sem verður með ratleik, í Króki á Garðaholti verður opið hús og minjagarðurinn að Hofsstöðum er opinn allan sólarhringinn.

Ratleikur í Hönnunarsafni Íslands

Í Hönnunarsafni Íslands í Garðabæ verður ókeypis aðgangur í tilefni dagsins þann 10. júlí. Í safninu er sýningin Hlutirnir okkar þar sem margir þekktir gripir úr safneigninni eru til sýnis, íslenskir og erlendir. Á íslenska safnadaginn verður ratleikur við hæfi allrar fjölskyldunnar um sýninguna.

Hönnunarsafn Íslands er til húsa að Garðatorgi 1 í Garðabæ og er safnið opið alla daga nema mánudaga frá kl. 12-17. Í anddyri safnsins er verslunin Kraum sem selur íslenska hönnun. Í safninu er einnig skemmtilegt barnahorn.

 

Opið hús í Króki á Garðaholti

Sunndaginn 10. júlí er einnig opið hús í Króki á Garðaholti frá kl. 13-17. Krókur er gamall burstabær sem var endurbyggður úr torfbæ árið 1923.   Í Króki eru varðveitt gömul húsgögn og munir sem voru í eigu hjónanna Þorbjörgu Stefaníu Guðjónsdóttur og Vilmundar Gíslasonar. Í sumar er unnið að viðgerðum og endurbótum á fjósi og hlöðu við Krók.
Krókur er opinn almenningi til sýnis alla sunnudaga í sumar frá kl. 13-17.  Tilvalið er að fara í göngutúr um Garðaholtið og koma við í Króki í leiðinni einnig er hægt að leggja bílum við samkomuhúsið á Garðaholti (Krókur er staðsettur ská á móti samkomuhúsinu).  Sjá nánari upplýsingar um Krók hér.

Merkar fornminjar að Hofsstöðum

Minjagarður að Hofsstöðum (við Kirkjulund, við hlið Tónlistarskóla Garðabæjar) er opinn allan sólarhringinn. Þar eru leifar af gömlum landnámsskála frá lokum 9. aldar til sýnis og einnig er þar fjölþætt og fróðleg margmiðlunarsýning á snertiskjáum í garðinum. Sjá nánari upplýsingar hér á heimasíðunni.

Minjagaðurinn við Hofsstaði