15. feb. 2011

Góð aðsókn á Safnanótt

Föstudagskvöldið 11. febrúar sl. var haldin Safnanótt á höfuðborgarsvæðinu og í Garðabæ var boðið upp á dagskrá í Hönnunarsafni Íslands, Bókasafni Garðabæjar og í Króki á Garðaholti. Í Hönnunarsafni Íslands var formleg opnun á sýningu á húsgögnum eftir Gunnar Magnússon húsgagnahönnuð
  • Séð yfir Garðabæ

Föstudagskvöldið 11. febrúar sl. var haldin Safnanótt á höfuðborgarsvæðinu og í Garðabæ var boðið upp á dagskrá í Hönnunarsafni Íslands, Bókasafni Garðabæjar og í Króki á Garðaholti.  Um 30 söfn á höfuðborgarsvæðinu voru með opið frá 19-24 þetta kvöld og einnig var í boði dagskrá á laugardeginum og sunnudeginum í tilefni Safnanætur.

Ný sýning opnuð

Í Hönnunarsafni Íslands var formleg opnun á sýningu á húsgögnum eftir Gunnar Magnússon húsgagnahönnuð.  Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson opnaði sýninguna á föstudagskvöldinu að viðstöddu fjölmenni.  Síðar um kvöldið var boðið upp á leiðsögn um sýninguna í fylgd sýningarstjórans, dr. Ásdísar Ólafsdóttur. Þetta er í fyrsta sinn sem sýnd er á svo heildstæðan hátt hönnun Gunnars og að auki er þetta í fyrsta skipti sem safnið gerir ævistarfi íslensks hönnuðar skil á þennan hátt. Á heimasíðu Hönnunarsafnsins má sjá nánari upplýsingar um sýninguna.

 

Fræðsla og tónlist

Í bókasafni Garðabæjar var boðið upp á fyrirlestur um Vífilsstaði og tónlist.  Steinar J. Lúðvíksson blaðamaður og rithöfundur flutti stuttan fyrirlestur um berklahælið að Vífilsstöðum í tilefni af 100 ára afmæli staðarins á síðasta ári.  Að því loknu var gestum boðið upp á kaffi og svo tók við tónlistaratriði með Sigríði Thorlacius söngkonu úr hljómsveitinni Hjaltalín og Guðmundi Óskari Guðmundssyni á gítar. Ágætis aðsókn var í safnið þetta kvöld og margir gestir sem lögðu einnig leið sína í Hönnunarafnið um kvöldið. Á laugardeginum var boðið upp á leiklestur fyrir börn í bókasafninu og einnig var opið hús í Króki á Garðaholti.

Sjá fleiri myndir í myndasafni hér á heimasíðunni.